Denis MacShane Evrópumálaráðherra er sannfærður um að Bretland muni taka upp evruna þegar efnahagslegum skilyrðum hefur verið fullnægt.
Denis MacShane Evrópumálaráðherra er sannfærður um að Bretland muni taka upp evruna þegar efnahagslegum skilyrðum hefur verið fullnægt. — Morgunblaðið/Þorkell
Denis MacShane, Evrópumálaráðherra Bretlands, er þess fullviss að Bretar muni samþykkja nýjan stjórnarskrársáttmála Evrópu- sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Líkt og Winston Churchill hugleiði hann ekki ósigur. Rúnar Pálmason ræddi við MacShane.

Denis MacShane var skipaður Evrópumálaráðherra Bretlands árið 2002. Hann er hámenntaður, fjöltyngdur og skrifar reglulega greinar í bresk, frönsk, þýsk og bandarísk dagblöð og hefur skrifað nokkrar bækur um alþjóðamál. Hann hefur ekki farið leynt með stuðning sinn við Evrópusambandið.

MacShane er hingað kominn til viðræðna við íslensk stjórnvöld og mun jafnframt halda opinn fyrirlestur í Norræna húsinu í hádeginu í dag. Í gær átti hann fund með Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og í dag hittir hann Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Samkvæmt upplýsingum frá breska sendiráðinu er MacShane fyrsti breski ráðherrann sem kemur sérstaklega til Íslands til viðræðna við íslenska ráðamenn.

Ný Evrópa í mótun

Á málþinginu mun MacShane m.a. ræða um áhrif stjórnarskrársáttmálans á EES-löndin, Ísland, Noreg og Liechtenstein. Hann var spurður um hver áhrifin yrðu. "Þegar stjórnarskrársáttmálinn hefur verið samþykktur tel ég að allar Evrópuþjóðir, hvort sem þær standa innan eða utan ESB, verði að endurmeta samskipti sín, jafnt sín á milli sem og við ESB," segir hann. Að hans mati stendur Evrópusambandið á tímamótum. Breytingarnar séu miklar, nýtt Evrópuþing hafi verið kosið og brátt verði ný framkvæmdastjórn ESB skipuð. Með stjórnarskránni fái löggjafarþing aðildarríkjanna og ríkisstjórnir þeirra aukin völd í hendur og á sama tíma hyggist ESB láta meira til sín taka á alþjóðavettvangi. Ný Evrópa sé í mótun og Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein hafi margt til málanna að leggja í þeirri þróun.

MacShane segist verða talsvert var við óánægju meðal Svisslendinga og Norðmanna sem verði að fylgja löggjöf ESB um efnahagsmál, verslun, öryggi, umhverfismál o.fl. án þess að hafa nokkuð um þessa löggjöf að segja. Hann segir þó erfitt að segja til um hvort eitthvert EES-landanna eða Sviss muni ganga í ESB á næstunni. Þau hafi öll ákveðið að standa fyrir utan sambandið til þessa og ákvörðunin sé eingöngu þeirra. Hann segist þó velta því fyrir sér hvort þau séu ekki nú að endurmeta sína stöðu. Með nýju stjórnarskránni sé orðið ljóst að ESB verði ekki eins konar ríkisheild sem stjórnað verði frá Brussel heldur verði það áfram skipað fullvalda þjóðríkjum.

Aldrei stutt einangrunarsinna

Nýja stjórnarskráin verður borin undir þjóðaratkvæði í Bretlandi og hafa margir áhyggjur af því að hún verði felld í þeim kosningum. MacShane er á hinn bóginn viss um að hún verði samþykkt. "Á þeim 32 árum sem Bretland hefur staðið innan ESB hafa Bretar í kosningum eða í þjóðaratkvæðagreiðslu aldrei fylkt sér að baki einangrunarsinnum eða andstæðingum ESB, hvort sem þeir hafa verið í röðum Verkamannaflokksins eða Íhaldsflokksins," segir hann. Bretar líði fyrir að flest bresku dagblöðin séu með eindæmum einangrunarsinnuð auk þess sem Íhaldsflokkurinn sé afar andsnúinn ESB.

Þó að skoðanakannanir bendi til þess að Bretar séu "ekki sérlega hrifnir" af ESB telur MacShane að niðurstaðan verði samt sem áður jákvæð. "Það verður verðugt verkefni að ná til breskra kjósenda og gera þeim grein fyrir þeim hörmungum sem myndu ríða yfir Bretland ef við snerum baki við ESB og einangruðum okkur frá bræðraþjóðunum á meginlandinu," bætir hann við.

Hann segir óhugsandi að Bretar hafni stjórnarskránni. "Líkt og Churchill þá neita ég að viðurkenna möguleika á ósigri," segir hann. Bretland yrði þá í alvarlegri stöðu enda yrðu skilaboðin til umheimsins þau að Bretar aðhylltust einangrunarstefnu. Slíkt hefði afar slæm áhrif á þjóðarhag.

Munu taka upp evruna

Ákvörðun Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands, um að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu var umdeild og hið sama má segja um ákvörðun Jacques Chiracs Frakklandsforseta að bera stjórnarskrána undir þjóðaratkvæði í Frakklandi. MacShane segist styðja ákvörðun Chiracs. Hann hafi verið undir miklum þrýstingi en stuðningsmenn ESB í Frakklandi eigi í höggi við hópa sem séu á ýmsan hátt svipaðir andstæðingum ESB í Bretlandi. MacShane telur að úrslitin í Frakklandi hefðu lítil áhrif í Bretlandi, þjóðir kjósi ekki á grundvelli þess sem gerist í öðrum löndum.

Auk þess að kjósa um stjórnarskrána munu Bretar einnig fá tækifæri til að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þeir taki upp evruna. Enginn veit þó hvenær sú atkvæðagreiðsla mun fara fram. "Ég er viss um að Bretland muni taka upp evruna þegar efnahagslegum skilyrðum hefur verið fullnægt og þegar efnahagur Evrópu verður eins kraftmikill og efnahagur Bandaríkjanna hefur verið á síðustu 10-15 árum," segir hann.

Sorgleg mistök ef aðild Tyrklands yrði hafnað

Í desember mun framkvæmdastjórn ESB taka afstöðu til þess hvort hefja eigi aðildarviðræður við Tyrkland. Slíkar viðræður geta þó aðeins hafist ef ráðherraráðið er því samþykkt.

Spurður um afstöðu sína til aðildar Tyrklands segist MacShane styðja hana, að því gefnu að Tyrkland uppfylli öll skilyrði ESB. "Að skella hurðinni á Tyrki væru sorgleg mistök nú í byrjun 21. aldar þegar Evrópa verður að opna landamæri sín og efnahag fyrir öðrum þjóðum. Ef eitthvað er verra en bresk einangrunarhyggja þá er það einangrunarhyggja af hálfu ESB," segir hann. Tyrkland sé á réttri braut en meira þurfi þó til. ESB verði að hvetja Tyrkland áfram en megi alls ekki setja sífellt erfiðari skilyrði fyrir aðild.

Hann tekur þó skýrt fram að þó að ákveðið yrði að hefja aðildarviðræður myndi Tyrkland ekki ganga inn í ESB á næstu tveimur árum eða svo. "Við erum að tala um aðild á næstu 10-15 árum og aðildarviðræðurnar verða örugglega erfiðar og spennuþrungnar. En Tyrkland getur nýtt þessi ár til að koma á enn frekari umbótum," segir MacShane.