Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, veifar til almennings í Róm eftir fund í neðri deild ítalska þingsins á dögunum.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, veifar til almennings í Róm eftir fund í neðri deild ítalska þingsins á dögunum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring | Brotthvarf Umbertos Bossis úr stjórn Silvios Berlusconis á Ítalíu er talið hafa veikt hana. Ýmislegt þykir benda til þess að stjórnin geti fallið fyrir lok mánaðarins vegna deilna milli stjórnarflokkanna.

Umberto Bossi, leiðtogi Norðurbandalagsins á Ítalíu, tilkynnti á mánudag að hann hygðist segja af sér sem umbótaráðherra í samsteypustjórn Silvios Berlusconis forsætisráðherra og láta af þingmennsku. Brotthvarf Bossis er talið veikja stjórnina og fram hafa komið vísbendingar um að hún kunni að falla vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna um umbótastefnu stjórnarinnar og valdabaráttu ráðherra.

Fréttastofan Reuters hafði eftir embættismanni í stjórninni í gær að hún kynni jafnvel að falla fyrir lok mánaðarins tækist Berlusconi forsætisráðherra ekki að leysa deilur stjórnarflokkanna.

Bossi, sem er 62 ára, kvaðst hafa ákveðið að láta af embætti ráðherra af heilsufarsástæðum, en hann fékk alvarlegt hjartaáfall í mars og er enn á sjúkrahúsi í Sviss. Hann verður áfram leiðtogi Norðurbandalagsins og hyggst halda sæti á Evrópuþinginu. Roberto Calderoli, sem er í Norðurbandalaginu, var skipaður umbótaráðherra í stað Bossis.

Orðnir þreyttir á hótunum Norðurbandalagsins

Norðurbandalagið sagði að flokkurinn vildi ekki fella stjórnina en varaði við því að hún ætti "erfiða daga fyrir höndum". "Ráðherrar Norðurbandalagsins verða áfram í stjórninni, þrátt fyrir yfirgengileg svik samstarfsflokkanna."

Norðurbandalagið virðist hér eiga við Þjóðarbandalagið, undir forystu Gianfrancos Finis, og Kristilega demókrata sem neita að ganga eins langt og Norðurbandalagið vill í því að auka völd héraða á kostnað þings og stjórnar í Róm.

Bossi varð fyrri stjórn Berlusconis að falli árið 1994 með því að ganga úr henni, aðeins sjö mánuðum eftir að hún komst til valda, vegna deilu um umbætur á lífeyriskerfinu. Í yfirlýsingu Norðurbandalagsins í vikunni var gefið til kynna að flokkurinn myndi ganga úr stjórninni ef samstarfsflokkarnir samþykktu ekki að héruðin fengju aukna sjálfstjórn. Slíti Norðurbandalagið stjórnarsamstarfinu er talið nánast öruggt að stjórnin falli og boðað verði til kosninga.

Norðurbandalagið hafði áður beitt hótunum um að ganga úr stjórninni til að knýja fram tilslakanir af hálfu Berlusconis og flokks hans, Forza Italia. Hinir stjórnarflokkarnir tveir, Kristilegir demókratar og Þjóðarbandalagið, eru orðnir þreyttir á þessum hótunum og þolinmæði þeirra virðist á þrotum.

Með brotthvarfi Bossis missir Berlusconi öflugan bandamann sem hafði stutt hann í deilum við Kristilega demókrata og Þjóðarbandalagið um efnahagsmál. Þessum tveimur flokkum tókst að knýja annan öflugan bandamann Berlusconis, Giulio Tremonti, til að láta af embætti efnahagsráðherra fyrir skömmu. Berlusconi ákvað að fara sjálfur með efnahags- og fjármál til bráðabirgða eftir afsögn Tremontis en Kristilegir demókratar mótmæltu þeirri ákvörðun mjög. Neyddist Berlusconi að lokum til að skipa nýjan efnahagsráðherra til að afstýra því að Kristilegir demókratar gengju úr stjórn og boða þyrfti til kosninga.

Forza Italia og Norðurbandalagið hafa beitt sér fyrir því að skattar verði lækkaðir og dregið verði úr ríkisútgjöldum til að blása lífi í efnahaginn og minnka skuldir ríkissjóðs. Þjóðarbandalagið og Kristilegir demókratar eru andvígir sparnaðaraðgerðunum vegna þess að þær myndu bitna mest á fátækum héruðum í sunnanverðu landinu þar sem fylgi flokkanna tveggja er mest.

Norðurbandalagið leggur mesta áherslu á að tryggja að auðugu héruðin á Norður-Ítalíu fái meiri pólitísk völd á kostnað þings og stjórnar í Róm. Hefur bandalagið lagt til að heilbrigðis-, mennta- og löggæslumál heyri undir héruðin. Þjóðarbandalagið og Kristilegir demókratar vilja hins vegar ekki ganga eins langt og Norðurbandalagið í þessum efnum og óttast að breytingarnar grafi undan einingu Ítalíu.

Kristilegir demókratar hafa aftur á móti lagt áherslu á að knýja fram breytingar á lífeyriskerfinu og segja þær nauðsynlegar til að rétta efnahaginn við.

Deilurnar mögnuðust í vikunni þegar Kristilegir demókratar lögðu fram tillögu um tíu breytingar á stjórnarfrumvarpi um að auka pólitísk völd héraðanna. Norðurbandalagið greip þá til þess ráðs að krefjast þess að atkvæðagreiðslu um breytingar á lífeyriskerfinu yrði frestað um viku, eða þar til í ljós kæmi hvort Kristilegir demókratar hygðust greiða atkvæði með frumvarpinu um aukin völd héraðanna.

Forza Italia beið ósigur í kosningum til sveitarstjórna og Evrópuþingsins í síðasta mánuði og fékk þá minnsta fylgi í sögu flokksins. Staða Berlusconis er því mjög veik og hann leggur nú mikið kapp á að koma á þeim efnahagslegu og félagslegu umbótum sem hann lofaði í síðustu kosningum en hafa strandað á deilum stjórnarflokkanna.

Stjórnin sögð í andarslitrunum

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa krafist þess að boðað verði til kosninga þegar í stað vegna deilnanna innan stjórnarinnar síðustu þrjár vikur. "Þessi stjórn getur ekki skipt um ráðherra á hálfs mánaðar fresti," sagði leiðtogi flokks græningja, Alfonso Pecoraro Scanio.

Pierluigi Castagnetti, þingmaður eins af vinstri- og miðflokkunum í stjórnarandstöðu, sagði að stjórnin væri í andarslitrunum. "Mér sýnist að stjórninni sé haldið á lífi með súrefnisvél. Ráðherrarnir geta ekki komið sér saman um neitt."

Stjórn Berlusconis hefur verið við völd í þrjú ár og lengur en nokkur önnur ríkisstjórn Ítalíu frá 1945.

Heimildir: AFP, AP, Financial Times.