— Ljósmynd/Jóhann Óli Hilmarsson
Lambagrasið myndar hálfkúlulaga þúfur með stuttum, striklaga blöðum og yfir blómgunartímann eru þær stundum alsettar leggstuttum, bleikum, blómum sem eru fimmdeild. Þúfurnar geta orðið allt að 40 sm í þvermál og um 10 sm háar.

Lambagrasið myndar hálfkúlulaga þúfur með stuttum, striklaga blöðum og yfir blómgunartímann eru þær stundum alsettar leggstuttum, bleikum, blómum sem eru fimmdeild. Þúfurnar geta orðið allt að 40 sm í þvermál og um 10 sm háar. Hver þúfa er með eina stólparót sem getur orðið mjög löng og var stundum notuð til matar í harðindum. Lambagras finnst víða á norðurhveli og nær t.d. allt til nyrsta hluta Grænlands og Norður-Ameríku. Það finnst einnig í norðanverðri Evrópu og í Ölpunum en vantar hins vegar alveg í Síberíu. Lambagras er mjög algengt um allt land, bæði á hálendi og láglendi. Íslenskir stofnar lambagrass eru yfirleitt sérbýla, þ.e. karl- og kvenblóm eru hvort á sinni plöntu. Blómgunartími er í maí-júní.

Heimild: Hörður Kristinsson 1986. Plöntuhandbókin. Blómplöntur og byrkningar. Íslensk náttúra II. Örn og Örlygur, Reykjavík. 306 bls.