Hrefna Guðmundsdóttir
Hrefna Guðmundsdóttir
Hrefna Guðmundsdóttir fjallar um starfsemi Svansins: "Starfsemi Svansins hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum."

Í HVERT sinn sem við förum út að versla eigum við kost á því að skapa heilnæmara umhverfi með því að velja umhverfisvænar vörur umfram aðrar. Það getur verið þrautin þyngri að velja úr hinum mikla fjölda vörumerkja sem eru á boðstólum og ekki augljóst hvaða kosti sumar vörur hafa fram yfir aðrar. Lýsing á innihaldi vara og markaðssetning er oft á tíðum villandi og flókin og því oft á tíðum erfitt að velja. Sumir framleiðendur halda því fram að varan þeirra sé umhverfisvæn og búa jafnvel til sitt eigið umhverfismerki en sjaldnast er skilgreint nákvæmlega hvað það felur í sér. Neytendur vita í slíkum tilfellum í raun ekki hversu mikið tillit hefur verið tekið til umhverfisþátta við hönnun og framleiðslu vörunnar. Til þess að einfalda neytendum valið hafa verið sett á stofn nokkur viðurkennd umhverfismerki sem starfa samkvæmt skilgreindu umhverfiseftirliti og vel skilgreindum reglum. Margvísleg skilyrði eru sett fram sem framleiðendur þurfa að uppfylla eftir því um hvaða vöru er að ræða til að fá leyfi til að nota viðkomandi umhverfismerki. Eitt viðurkenndasta umhverfismerkið á norrænum slóðum er Svanurinn. Starfsemi Svansins hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin bæði hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Svanmerkt fyrirtæki og vörur hér á landi bætast í hópinn á hverju ári og nú síðast afhenti Siv Friðleifsdóttir Farfuglaheimilinu í Reykjavík Svansmerkið fyrir umhverfisvæna þjónustu.

Neytendur geta verið vissir um að þær vörur og sú þjónusta sem bera merki Svansins hafa verið þróaðar og framleiddar undir ströngu eftirliti sérfræðinga á hverju sviði með því markmiði að framleiðsla vörunnar og notkun hennar valdi lágmarksálagi á náttúruna án þess að það hafi þó áhrif á gæði vörunnar. Það hefur sýnt sig að fjölmargir neytendur kjósa frekar vörur merktar viðurkenndum umhverfismerkjum eins og Svaninum heldur en aðrar ómerktar vörur. Þau fyrirtæki sem hafa valið að svansmerkja fyrirtæki sitt eða vörur sínar verða flest vör við aukningu í sölu auk þess sem þeim eykst virðing hjá okkur neytendum fyrir gott framtak í umhverfismálum. Við viljum öll búa í heilnæmu umhverfi en til þess svo megi verða er mikilvægt að við leggjum öll eitthvað af mörkum. Hvert einasta framtak skiptir máli. Með því að velja umhverfismerktar vörur í okkar allra þágu getur hvert og eitt okkar lyft grettistaki hvað varðar bætt og betra umhverfi. Þau fyrirtæki sem sýna vistvernd í verki með því að umhverfismerkja vörur sínar og þjónustu eiga heiður skilinn og þeir neytendur sem líta fyrst til viðurkenndra umhverfismerkja eins og Svansins áður en varan er valin eiga þakkir skildar. Horfum fram á veginn með Svaninum til bjartrar framtíðar.

Hrefna Guðmundsdóttir fjallar um starfsemi Svansins

Höfundur er upplýsinga- og fræðslustjóri hjá Umhverfisstofnun.