HIÐ merka framtak ungs fólks á Vestfjörðum í þremur stjórnmálaflokkum sem bar nafnið Með höfuðið hátt vakti mikla og verðskuldaða athygli. Þar var sleginn nýr og jákvæður tónn og áherslan lögð á lausnir og möguleika sem eru til staðar á Vestfjörðum og víða um land. Framtak af þessu tagi gæti orðið fleirum leiðarljós og væri sannarlega gaman að sjá viðlíka gert víðar á landinu.
Byggðamálin eru viðfangsefni sem við höfum ekki náð tökum á. Neikvæð búsetuþróun er enn til staðar. Margt hefur þó breyst. Byggðir nálægt höfuðborgarsvæðinu vaxa nú hraðar en áður, stóriðjuuppbygging fyrir austan og á Grundartanga styrkir búsetu og Eyjarfjarðarsvæðið getur nú veitt alvöru viðspyrnu, vegna fjölbreytninnar í samfélaginu. Eftir stendur vandi víða annars staðar sem er algjörlega óleystur, en kallar á ný viðhorf vegna þeirra gríðarlega miklu og öru þjóðfélagsbreytinga sem við sjáum að hafa orðið á undanförnum árum. Margt bendir raunar til að þessi vandi sé núna afmarkaðri og því viðráðanlegri en áður. Það ætti að vera hvatning í okkar ríka þjóðfélagi til frekari dáða.
Það var í raun þetta sem unga fólkið var að benda á fyrir vestan. Þetta framtak var í raun og veru hvatning um að nýta þau tækifæri sem væru fyrir hendi og skoða þau í ljósi breytinga í þjóðfélagi okkar.
Háskólakennsla - rökrétt framhald
Tökum dæmi. Námssókn ungs fólks fer vaxandi. Svarið við því hlýtur því að vera að auka námsframboðið víðar á landinu og koma þannig til móts við vaxandi þarfir. Skólastarf breytist hratt. Meðal annars vegna nýrrar tækni. Háskólakennsla og fyrirkomulag hennar er að gjörbreytast á þann veg að það gagnast mjög íbúum hinna dreifðari byggða. Þetta endurspeglast í þeirri gríðarlegu námssókn í fjarnám sem við öll þekkjum. Athyglisvert er hins vegar að fjarnám af öllu tagi er nú ekki síður orðið úrræði fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu en utan þess, eins og þó var raunin í upphafi. Uppbygging háskólanáms tekur mið af því.Sú umræða sem fram hefur farið á Vestfjörðum um uppbyggingu háskólanáms er eðlilegt framhald af mikilli ásókn í háskólanám með fjarkennslusniði. Ríflega 100 nemendur á Vestfjörðum stunda nám á háskólastigi ár hvert. Hér er ekki á ferðinni bóla, sem hjaðnar, eins og margir héldu. Þetta virðist vera orðin varanleg stærð. Þess vegna er rökrétt að byggja ofan á það; þetta sem fyrir er, eins og við Vestfirðingar höfum reynt að benda á og þróa eðlilega háskólakennslu, sem þó tæki mið af aðstæðum hjá okkur.
Jákvæð viðbrögð
Yfirvöld menntamála hafa tekið þessu jákvætt. Þann 18. desember sl. skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, vinnuhóp um háskólasetur á Vestfjörðum. Í hópnum sátu fulltrúar frá háskólasamfélaginu, ráðuneyti og heimamönnum. Nefndin leggur til tiltekna útfærslu á háskólanámi sem ástæða er til að binda miklar vonir við. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra kynnti á fundi um þessi mál ákvörðun sína um að varið yrði sérstaklega 20 milljónum króna til frekari undirbúnings þessu verkefni. Nú er unnið hörðum höndum, meðal annars af hálfu heimamanna, að útfærslu málsins. Það er því ástæða til þess að fagna því að þetta mikla framfaramál er á góðum rekspöl. Nú er það meðal annars hlutverk okkar þingmanna að tryggja að þessi vinna geti haldið áfram og við þannig náð markmiðum okkar.
Tækifærin eru til staðar
Nám, hvort sem er á háskólastigi eða öðrum skólastigum, er vitaskuld markmið í sjálfu sér. En það er einnig þáttur í þeirri nýju mannlífsmynd sem við þurfum að móta á landsbyggðinni. Þar hyggjum við líka að öðrum þáttum. Við vitum að fólk vill búa á landsbyggðinni, eigi það þann kost. Þetta hefur komið fram í vönduðum könnunum. Þegar auglýst er eftir sérhæfðu starfsfólki til starfa á landsbyggðinni, sækir mikill fjöldi fólks um. Sveitarstjórnarmenn segja okkur að brottflutt ungt fólk sem hefur aflað sér sérþekkingar í námi eða starfi sækist eftir að snúa til heimahaganna, enda er búseta á landsbyggðinni eftirsóknarverður kostur, eins og allir vita. Þröskuldurinn er hins vegar oftast skortur á atvinnutækifærum.Lausnirnar eru í sjálfu sér ekki einfaldar, en þær eru til. Hið opinbera getur stuðlað að þeim með óbeinum hætti, en einnig beinum. Ríkið, stærsti vinnuveitandi á Íslandi getur vitaskuld skipulagt starfsemi sína með þannig hætti að uppbygging atvinnutækifæra verði í stórauknum mæli á landsbyggðinni, einkanlega þar sem ekki nýtur áhrifa af annarri atvinnuuppbyggingu. Þetta er sjálfsagt úrræði og örugglega það skjótvirkasta og skilvirkasta til þess að snúa við byggðaþróuninni.
En kjarni málsins er sá sem unga fólkið á Ísafirði benti okkur á. Tækifærin eru til staðar, vilji fólksins til búsetu á landsbyggðinni er ótvíræður. Það er verkefni okkar að skapa skilyrðin svo hægt sé að grípa tækifærin þannig að unga fólkið geti valið sér búsetu á landsbyggðinni í samræmi við óskir sínar.
Einar K. Guðfinnsson fjallar um byggðamál á Vestfjörðum
Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður í Norðvesturkjördæmi.