Ragnhildur Sigurðardóttir
Ragnhildur Sigurðardóttir — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GARÐAVÖLLUR á Akranesi verður í kastljósinu næstu fjóra daga þar sem Íslandsmótið í höggleik fer fram. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmótið fer fram á vellinum sem var formlega opnaður sem 18 holna völlur hinn 7. júlí árið 2000.

GARÐAVÖLLUR á Akranesi verður í kastljósinu næstu fjóra daga þar sem Íslandsmótið í höggleik fer fram. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmótið fer fram á vellinum sem var formlega opnaður sem 18 holna völlur hinn 7. júlí árið 2000. Á fundi með fréttamönnum sl. þriðjudag sögðu forsvarsmenn Leynis sem er framkvæmdaaðili mótsins að ráðist hefði verið í fjölmargar framkvæmdir til þess að gera mótið sem eftirminnilegast. Allir bestu kylfingar landsins verða með á Akranesi og þar af eru margir Íslandsmeistarar á ferð. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, og Ragnhildur Sigurðardóttir, GR, eiga titil að verja og verða þau án vafa í baráttunni allt þar til úrslit ráðast síðdegis á sunnudag.

Það eru alls 17 kylfingar sem eru með 0 eða lægra í forgjöf í karlaflokki, en Ragnhildur Sigurðardóttir og Ólöf María Jónsdóttir, GK, eru einu konurnar af 17 keppendum í kvennaflokki sem er með minna en 0 í forgjöf. Og má leiða að því líkum að forgjafarlægstu leikmenn mótsins verði í efstu sætunum þegar upp er staðið.

*Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, -3,4: Birgir Leifur er til alls líklegur enda á sínum gamla heimavelli. Hann lék gríðarlega vel á meistaramóti GKG á dögunum og endaði á samtals 14 undir pari. Birgir hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari og ætlar sér örugglega að bæta þeim þriðja í safnið á sunnudag.

*Heiðar Davíð Bragason, GKj., -2,7: Heiðar lék sem gestur á meistaramóti GL á dögunum og kynnti sér völlinn. Hann hvíldi hins vegar á meistaramóti Kjalar og mætir því úthvíldur til leiks. Heiðar hefur átt góðu gengi að fagna á erlendri grund á árinu. Hann sigraði á dögunum á áhugamannamóti í Wales og hefur sýnt að hann getur unnið hvaða mót sem er en hann hefur aldrei orðið Íslandsmeistari.

*Björgvin Sigurbergsson, GK, -2,6: Björgvin sigraði á meistaramóti GK á dögunum eftir harða keppni við Ólaf Má Sigurðsson. Björgvin hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari.

*Sigurpáll Geir Sveinsson, GA, -2,3: Sigurpáll lék vel á meistaramóti GA þar sem hann endaði á samtals 7 undir pari. Hann hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari og síðast á Hellu árið 2002.

*Ólafur Már Sigurðsson, GK, -2,3: Ólafur Már hefur verið í fremstu röð íslenskra kylfinga undanfarin ár en ekki náð að sigra á Íslandsmótinu á sínum ferli. Ólafur er til alls líklegur enda með forgjafarlægstu kylfingum landsins.

*Úlfar Jónsson, GKG, -1,8: Úlfar er sexfaldur Íslandsmeistari og er enn á meðal þeirra allra bestu þrátt fyrir að hann leiki ekki mikið keppnisgolf. Úlfar sagði á dögunum að hann hefði aðeins leikið tvo keppnishringi það sem af væri tímabilinu en hann kann sitt fag og gæti vel hitt á fjóra afbragðsgóða daga í röð á Akranesi.

*Magnús Lárusson, GKj., -1,4: Magnús sigraði á meistaramóti GKj., á samtals fjórum undir pari en hann er gríðarlega efnilegur kylfingur, enda aðeins 19 ára gamall. Það eru ekki margir sem slá lengra en Magnús og ætti hann að geta forðast flestar hindranir á vellinum nái hann að halda boltanum á braut.

*Örn Ævar Hjartarson, GS, -1,3: Ekki má gleyma "Erninum" sem sigraði í Grafarholtinu árið 2001. Örn Ævar lék á samtals 4 undir pari á meistaramóti GS og var afar stöðugur í leik sínum alla fjóra keppnisdagana. Örn á það til að hrökkva í gír og er þá fátt sem stöðvar hann við að safna fuglum á þeim velli sem hann leikur þá stundina.

Í kvennaflokki má búast við að baráttan standi á milli Ragnhildar Sigurðardóttir, GR, og Ólafar Maríu Jónsdóttur úr GK. Þórdís Geirsdóttir, GK, gæti einnig blandað sér í slaginn en hún varð klúbbmeistari GK á dögunum. Herborg Arnarsdóttir, GR, hefur lítið keppt í sumar en hún gæti einnig gert atlögu að titlinum sem hún vann árið 2001.

Hannes Þorsteinsson, hönnuður vallarins, segir að töluverðar breytingar hafi átt sér stað á vellinum undanfarin misseri. Hann býst við að margir geti leikið á nokkrum höggum undir pari í heildina verði veðrið skaplegt en fari vindar að blása um völlinn verði skorið hærra. "Völlurinn er nokkuð langur, 6.006 metrar í heildina, og 18% styttri af bláum teigum sem konurnar leika af, sem er styttra en var áður, eða 4.964 metrar í stað 5.282 metrar.

Aðalsteinn Ingvarsson vallarstjóri segir að allt sé til reiðu. Flatirnar betri en áður og hraðinn verði um 10 "stimpmetrar". "Karginn (röffið) verður ekki mjög hátt en við bárum vel á það á dögunum og þéttleikinn er mikill. Það verður ekki létt að slá úr karganum."

Eftir Sigurður Elvar Þórólfsson