FORRÁÐAMENN þýska knattspyrnusambandsins halda áfram leit sinni að eftirmanni Rudi Völlers í stöðu landsliðsþjálfara Þýskalands í knattspyrnu.

FORRÁÐAMENN þýska knattspyrnusambandsins halda áfram leit sinni að eftirmanni Rudi Völlers í stöðu landsliðsþjálfara Þýskalands í knattspyrnu. Hvorki gengur né rekur að finna þjálfara í starfið og nú þegar hafa þeir Ottmar Hitzfeld og Otto Rehhagel hafnað boði sambandsins.

Nú hafa þeir snúið sér að Jürgen Klinsmann, sem þessa stundina starfar við markaðssetningu á bandarísku knattspyrnudeildinni. Klinsmann var í heimsmeistaraliði Þjóðverja árið 1990 og fyrirliði Evrópumeistaraliðsins 1996. Hann lék með Ásgeiri Sigurvinssyni hjá Stuttgart, en gerðist síðan leikmaður með Inter Mílanó, Mónakó, Tottenham, Bayern München og Sampdoría. Hann hefur aflað sér menntunar á sviði knattspyrnufræða, en hefur enga starfsreynslu.