Komin er út bókin Skaftafell National Park eftir Daníel Bergmann hjá JPV útgáfunni. Bókin kemur út í tveimur útgáfum; önnur á ensku og hin á þýsku.
Í bókinni eru 95 litmyndir eftir Daníel Bergmann sem jafnframt skrifar textann. Fjallað er um landslagið, gróðurfar og dýralíf í Skaftafelli og nágrenni. Þá er í bókinni kort af svæðinu og leiðbeiningar um gönguleiðir og margvíslegar hagnýtar upplýsingar fyrir ferðamenn.
Skaftafell er 80 bls. í stóru broti, prentuð í Slóveníu. Leiðbeinandi útsöluverð er 1.490 kr.
Hjá Máli og menningu eru komin út tvö sérkort: Skaftafell og Fjallabak .
Skaftafell er nýtt og vandað sérkort í mælikvarða 1:100 000 af svæði sem nær frá Lakagígum í vestri, yfir Síðu, Núpsstaðarskóga, Skaftafell og austur fyrir Öræfajökul. Inn á kortið eru merktar allar helstu gönguleiðir og jeppaslóðar. Fjallabak er endurskoðað sérkort í mælikvarða 1:100 000 af svæði sem nær yfir Landmannaleið, Fjallabak nyrðra og syðra og leiðina í Lakagíga. Kortið sýnir auk þess vinsælustu gönguleiðir svæðisins. Allur texti kortanna er á fjórum tungumálum; íslensku, ensku, þýsku og frönsku.
Verð er 990 kr.
Út er komin hjá Háskólaútgáfunni geisladiskurinn Planning in Iceland - From the Settlement to Present Times eftir Trausta Valsson . Um er að ræða Acrobat PDF form enskrar útgáfu bókarinnar Skipulag byggðar á Íslandi - Frá landnámi til líðandi stundar, sem kom út fyrir tveimur árum. Geisladiskurinn, eða bókin, er fyrsta rit sinnar tegundar um manngert umhverfi á Íslandi. Þróunin er rakin allt frá landnámi til líðandi stundar. Fjallað er um náttúruna sem hið mótandi afl í þróun byggðarinnar, byggðarmótun, skipulagsþróun bæja og svæða, þróun kerfa á landsvísu og loks um þróanir seinni tíma.
Verð er 2.900 kr.
Ný kveðskaparbók, Bræðingur og brotasilfur , eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd er komin út. Er þetta fimmta kveðskaparbók Rúnars en jafnframt sjötta bókin frá hans hendi, því að í vor sendi hann frá sér smásagnasafnið Þar sem ræturnar liggja, útgefið af vestfirska forlaginu, undirtitill "lífssögur af landsbyggðinni".
Bræðingur og Brotasilfur inniheldur ljóð og vísur, frumort efni frá síðustu árum. Bókin er tileinkuð minningu Kristjáns Arinbjörns Hjartarsonar, föður höfundar, en hann lést á síðastliðnu ári.
Bókin er 120 blaðsíður og prentuð í Prentsmiðju Hafnarfjarðar.
Bókaforlagið Hljóðbók.is hefur gefið út hljóðbækurnar Valin Grimms-ævintýri, Línu Langsokk og Grafarþögn .
Grafarþögn er lesin af Sigurði Skúlasyni leikara. Um lítillega stytta útgáfu er að ræða en hún er um sjö og hálf klst. á sex geisladiskum. Verð er kr. 4.280.
Lína Langsokkur er lesin af Völu Þórsdóttur leikkonu. Bókin er um 210 mínútur á lengd og er á 3 geisladiskum. Verð er kr. 2.190.
Valin Grimms-Ævintýri eru lesin af Þorsteini Thorarensen þýðanda. Bókin er um 120 mínútur að lengd og er á tveimur geisladiskum. Verð er kr. 1.990.