SUMARSÝNINGAR eru sjaldnast stórtækustu verkefnin sem listasöfn leggjast í. Er oftast samantekt á verkum úr safneigninni sett fram í nýju samhengi eða flokkuð eftir þema. Þemað sem Listasafn Íslands hefur valið þetta sumarið er umhverfi og náttúra í íslenskri myndlist á 20. öldinni. Er þetta ráðandi umfjöllunarefni í myndlistarsögu okkar. Spannar alla frumherjana, landslagsmálarana sem réðu lögum og lofum í íslenskum myndlistarheimi fyrstu 50 ár módernismans. Íslenskir abstraktmálar sóttu líka flestir innblástur til náttúrunnar, íslenskir konseptlistamenn hafa skírskotað til íslenskrar náttúru og umhverfis og megnið af listamönnum póstmódernismans má skipa í þetta þema, enda beinast hefðbundin (sem/og óhefðbundin) gildi íslenskrar myndlistar að náttúru og umhverfi. Sem sagt, tilvalið þema til að nota í yfirgripsmikla sumarsýningu á íslenskri myndlist.
Aðstandendur listasafnsins, með Ólaf Kvaran í forsvari, leitast við að gefa annars konar sýn á þessa sögu okkar með því að spila saman listaverkum óháðum tímabili. Þ.e. að verkin eru ekki sýnd í tímaröð. Maður gengur ekki inn í fyrsta salinn með verkum frumherjanna og svo upp þróunarstigann, heldur blandast tímabilin saman. Ljósmyndaverk eftir Ólaf Elíasson hangir til móts við málverk eftir Ásgrím Jónsson, málverk Jóns Stefánssonar af Eiríksjökli hangir til hliðar við nýlegan skúlptúr eftir Olgu Bergmann og þannig má áfram telja. Með þessum hætti kann sýningargestur að skoða listaverkin í öðru ljósi en hann er vanur. Þess háttar upphengi hefur reyndar verið að sjást víða í söfnum erlendis þar sem maður var vanur að ganga fyrst í gegnum kúbismann, síðan expressjónismann og svo koll af kolli. Safneign Tate Modern í Lundúnum er t.d. sýnd með þessum hætti. Verk eftir Marcel Duchamp, Man Ray, Jeff Koons og Damien Hirst eru þar sýnd saman í herbergi. Spanna samt nær 100 ár í listasögunni. Það er því ekki tímabilin sem skipta meginmáli, heldur nálgunin.
Finnst mér ástæða til, í þessu sambandi, að velta upp spurningu um stýringu á túlkun eða upplifun sýningargesta. Er mér minnisstæður fyrirlestur breska heimspekingsins Jonathans Dronsfield í Listaháskóla Íslands í fyrra, þar sem hann tók dæmi um sýningu þar sem hver sýningagestur fær ólíka tækjaleiðsögnum (audio guide) um sýninguna, jafnvel lögð áhersla á eitt verk í einni leiðsögn en sama verk svo ekki nefnt á nafn í þeirri næstu. Þannig er safnið eða sýningarstjórinn að stýra hverjum sýningargesti í átt að vissri túlkun á verkunum og sýningarheildinni. Slíkt gerist í raun líka með upphengi, þótt það sé ekki í jafnýktum mæli og Dronsfield talaði um. Listaverk sem hafa einhverja sýnilega tengingu og eru sýnd saman beina áhorfenda að vissri nálgun og að vissri túlkun. Það kann reyndar að hafa fræðslugildi en er engu að síður stýring.
Samspil listaverkanna í Listasafni Íslands ræðst mikið til af útliti listaverkanna og/eða viðfangsefni sem snerta áþekk náttúruleg fyrirbæri, en ekki nálgun listamannanna. Skiptist upphengið jafnan í tvennur eins og í myndasögubókum fyrir börn þar sem hlutir á sitt hvorri síðunni líkjast. Fígúrur í Kjarvalsmálverki líkjast börnum í ljósmyndaverki Hlyns Hallssonar sem hanga hlið við hlið, bunga í málverki Jóns Stefánssonar kallast á við bungu í skúlptúr Olgu Bergmann o.s.frv. Á samspilið það til að verða svolítið yfirborðslegt, enda höfum við sennilega ekki nógu víðtæka myndlistarsögu til þess að svona upphengi gangi almennilega upp. Þó held ég að möguleikarnir væru meiri ef eitt þema, náttúra og umhverfi, væri ekki ráðandi í öllum sölum safnsins.
En við lærum oft ekki nema á því að framkvæma og svo endurskoða með gagnrýnum hætti. Tilraunin er því virðingarverð. Ekki síst fyrir þær sakir að vekja upp spurningar eins og um stýringu og takmarkaða myndlistarsögu okkar. Segir okkur líka að það er verið að leita leiða í safninu til að endurskoða listasögu okkar sem/og fræðsluhlutverk safnsins.
Jón B.K. Ransu