Guðrún Geirsdóttir: Duglegri að halda matarboð á sumrin.
Guðrún Geirsdóttir: Duglegri að halda matarboð á sumrin. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Ég æfi hlaup þrisvar til fjórum sinnum í viku milli sex og átta á kvöldin og kem oft seint heim og finnst þá of seint að elda eitthvað flókið."

Ég hef gaman af því að versla í matinn og fer oft í matvörubúðir þegar ég er erlendis, svona til að forvitnast um úrvalið," segir Guðrún Geirsdóttir, lektor í uppeldis- og kennslufræðum við Háskóla Íslands. "Ég reyni að fara einu sinni í viku í Bónus og auðvitað ætla ég alltaf að vera skynsöm og halda mig við innkaupalistana og kaupa allt þar en það dettur oft um sjálft sig. Þetta er eins og með hrísgrjónagrautinn og kindakæfuna, sem ég ákveð að hafa í hvert mál í upphafi mánaðar þegar reikningarnir koma og ég átta mig á hversu stór hluti launanna fer í matarinnkaup."

Æfir langhlaup

Guðrún býr ásamt 18 ára dóttur sinni, Ragnheiði Láru, og skammt undan er kærastinn Hannes sem sér yfirleitt um fiskmáltíðirnar einu sinni til þrisvar í viku. Guðrún æfir hlaup og var í öðru sæti í Mývatnsmaraþoninu í ár en í ár hljóp hún hálfmaraþon í Íslandsmeistaramótinu eftir að hafa náð öðru sæti í fyrra. Þessa dagana er hún að undirbúa sex daga göngu með bakpoka og tjald um Kjalveg hinn forna eins og sjá má af því sem ratar í innkaupakörfuna.

"Þetta verða ekki dæmigerð innkaup í dag," segir hún. "Fyrir utan gönguferðina verð ég með gesti í mat og þá fer ég í Hagkaup, annað hvort í Kringlunni eða á Eiðistorgi.

Gestunum ætla ég að bjóða upp á salatblöndu með fetaosti og ristuðum furuhnetum, hunangsmarineraðar kjúklingabringur með sesamfræi á grillið, blöndu af bökuðum sætum kartöflum og venjulegum kartöflum krydduðum með timjan og melónur í eftirmat en melónur eru á sértilboði núna. Svo er gott að vera með gott kaffi og súkkulaðibita í lokin."

Guðrún segir að yfirleitt borði þau frekar léttan mat yfir sumarið, fisk einu sinni til tvisvar í viku, sem Hannes sér um, en sjálf er hún meira fyrir grænmeti og vildi gjarnan vera hollustan uppmáluð og borða meira af lífrænt ræktuðu grænmeti. "En það er helmingi dýrara en annað grænmeti sem er í boði og þá tími ég hreinlega ekki að kaupa það," segir hún. "Það er aðeins munur á vetrarmatseðlinum þegar dagskráin er þrengri," segir hún. "Ég æfi hlaup þrisvar til fjórum sinnum í viku milli sex og átta á kvöldin og kem oft seint heim og finnst þá of seint að elda eitthvað flókið. Þá er gott að grípa í einfaldari matseld. Eitthvað sem stinga má í ofninn eða pastarétti og annað fljótlegt. Á sumrin gerir minna til að elda seinna. Þá verður matseðillinn líka fjölbreyttari þegar tíminn er nægur. Þá grillum við oft fisk og svo eru það kjúklingabringurnar. Þær eru alltaf vinsælar. Reyndar tengi ég sumarið meira við sukk í matargerð og býð oftar í mat enda auðveldara að ná til fólks þegar vinnuálagið er minna."

Samloka og þurrfóður

Guðrún segir að eitt það skemmtilegasta sem hún geri á sumrin sé að fara í lautarferð með smurt brauð og kaffi á brúsa. "Samloka með harðsoðnum eggjum, tómötum, beikoni, rúkolasalati og graslauk er alveg ómissandi," segir hún. "Svona samloka verður í boði fyrsta daginn í gönguferðinni en svo verður alveg skipt um gír. Við verðum að vikta allt í mátulega skammta í plastpoka, 80-100 g af múslí í morgunmat á dag, pakkasúpu í hádeginu, döðlur, gráfíkjur, rúsínur í skömmtum til að nasla á yfir daginn. Persónulega finnast mér hnetur með súkkulaðihjúp betri en þjálfarinn minn er ekki alveg á sama máli. Svo er það sérstakt þurrfóður úr útivistarbúðum í kvöldmat sem er alveg fullkomin máltíð. Ég tek líka með mér orkudrykk á brúsa og svo er gott að vera með flatkökur og hangikjöt en lúxusinn finnst mér vera að taka með einhvern mjúkost, td. Gullost eða Camembert, þeir halda sér vel og verða bara betri þegar þeir klessast í bakpokanum í nokkra daga. Sama er að segja um matarkex eða kremkex, það er líka gott að vera með það. Verðlaunin eftir göngu dagsins er heitt Swiss Miss með skvettu af Captain Morgan út í. Það er toppurinn á tilverunni á svona göngu."