BRÚÐKAUP að gömlum sið verður aðalatriði starfsdags á sumri, sem haldinn verður í Laufási næsta sunnudag, 25. júlí. Dagskráin hefst kl. 14 með því að brúðurin kemur ríðandi í söðli að Gamla bænum, þar sem hún gengur til brúðarhúss og klæðist...

BRÚÐKAUP að gömlum sið verður aðalatriði starfsdags á sumri, sem haldinn verður í Laufási næsta sunnudag, 25. júlí. Dagskráin hefst kl. 14 með því að brúðurin kemur ríðandi í söðli að Gamla bænum, þar sem hún gengur til brúðarhúss og klæðist skautbúningi. Á meðan kemur brúðguminn í hlað ásamt sveinum sínum.

Þegar brúðurin er tilbúin er gengin brúðarganga til kirkju, þar sem athöfnin fer fram samkvæmt handbók frá 1879. Allir eru velkomnir til kirkju. Eftir athöfnina í kirkjunni er tekið til við veisluhöld við Gamla bæinn. Þar verður eitt og annað gert til skemmtunar, m.a. sýnd glíma.

Gestum gefst tækifæri til að bragða á veislukostinum og taka þátt í veisluhöldunum, m.a. í dansi. Hluti veislukostsins verður framleiddur inni í Gamla bænum og geta gestir séð þá matargerð, en einnig verður sýnd tóvinna í baðstofunni.

Lifandi tónlist verður leikin, og inni í Gamla prestshúsinu geta gestir keypt sér veitingar. Þetta er í ellefta skipti sem starfsdagur á sumri er haldinn hátíðlegur í Laufási.