ÖSSUR Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að 26. gr. stjórnarskrárinnar hefði verið þaulrædd fyrir setningu hennar árið 1944 og merking ákvæðisins alveg skýr.
"Ég verð að segja að mér finnst þetta tær snilld, þetta ákvæði. Þetta er þrauthugsað og það hefur heldur betur sýnt sig að þetta er nauðsynlegur nauðhemill þegar ríkisstjórn, eins og þessi, tapar sjónar á því sem rétt er í lýðræðislegu samfélagi og lendir utan vegar," sagði Össur á Alþingi í gær. Fluttar hefðu verið þrjár breytingartillögur sérstaklega við 26. greinina. Allar hefðu þær verið felldar því að þingmenn vildu nákvæmlega þennan farveg, að málið færi til þjóðarinnar.
Afhjúpa vanþekkingu
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, sagði að það hefði verið sómi að því hvernig staðið var að setningu stjórnarskrárinnar 1944. Sagði hann það afhjúpa gríðarlega vanþekkingu í þessu máli að halda því fram að mönnum hefði legið svo mikið á til Þingvalla lýðveldisárið, að ekki hefði verið hægt að standa vandlega að setningu stjórnarskrárinnar. Verja yrði heiður þeirra manna sem þarna áttu í hlut.