Þriðja plata þungarokkstrúðanna og þeirra síðasta að eigin sögn.

ÞVÍ verður ekki neitað að Slipknot hrærðu hressilega upp í þungarokksfræðunum með annarri plötu sinni, samnefndri sveitinni ('99) og undirstrikuðu það svo með Iowa, sem kom út tveimur árum síðar. Ímyndarvinnan hefur verið stór þáttur í velgengni Slipknot en sjálf tónlistin hefur þó engu að síður staðið undir sér.

Vol. 3 (The Subliminal Verses) er ágætis plata sem slík, vandað er til verka og metnaðurinn er auðheyranlegur, en þetta dæmi er að engu síður búið. Manni finnst ekkert flott lengur að sjá mann berja í stáltunnu með trúðsgrímu fyrir andlitinu og "sjokk"-vinkillinn er fyrir löngu gufaður upp. Þetta er allt eitthvað svo teiknimyndalegt.

Þessi plata hentar mjög vel þeim Kornaðdáendum sem vilja eitthvað aðeins víraðra en eru þó ekki tilbúnir til að leggja í Tool. Og það er auðvitað árangur út af fyrir sig. En þrátt fyrir öll trúðlætin og stælana hafa Slipknot, ólíkt Korn og Tool, í raun aldrei skapað sér neina sérstöðu, a.m.k. ekki tónlistarlega.

Trúður úti í mýri, sett' upp á sér stýri, úti er ævintýri.

Arnar Eggert Thoroddsen