HELGI Ólafsson stórmeistari telur ástæðu fyrir starfsmenn sendiráðs Íslands í Tókýó í Japan til að kanna hvort þeir geti fengið að ræða við Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistara í skák, en hann situr núna í fangelsi í Japan.

HELGI Ólafsson stórmeistari telur ástæðu fyrir starfsmenn sendiráðs Íslands í Tókýó í Japan til að kanna hvort þeir geti fengið að ræða við Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistara í skák, en hann situr núna í fangelsi í Japan. Líkur eru á að hann verði framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann er eftirlýstur fyrir að brjóta viðskiptabann á Júgóslavíu.

Þriggja manna nefnd á vegum Skáksambands Íslands freistaði þess árið 2000 að hafa áhrif á gang mála Fischers. Í nefndinni voru Guðmundur G. Þórarinsson, sem var forseti Skáksambands Íslands þegar heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskís var háð í Reykjavík 1972, Helgi Ólafsson stórmeistari og Áskell Örn Kárason, þáverandi forseti SÍ.

Helgi sagði að mál Fischers væri sorglegt og hörmulegt hvernig fyrir honum væri komið. Svo virtist sem málið tengdist liðhlaupi manns frá Norður-Kóreu til Japans. Stjórnvöld í Japan vildu með handtöku Fischers blíðka bandarísk stjórnvöld sem væru óánægð með hvernig japönsk stjórnvöld hefðu meðhöndlað mál liðhlaupans. Eins virtist sem ummæli Fischers um Bandaríkin hefðu ekki hjálpað honum.

Helgi sagðist vita til þess að fréttamaður AP hefði reynt að óska eftir viðtali við Fischer, en japönsk stjórnvöld hefðu hafnað því. Helgi sagðist telja að sendiráð Íslands í Japan ætti að kanna hvort hægt væri að fá að tala við Fischer og kanna líðan hans. Það gæti ekki verið skemmtilegt fyrir mann á hans aldri að bíða í óvissu í japönsku fangelsi.