Skipatæknifræðingarnir hjá Verkfræðistofunni Skipasýn sf. telja að með tveimur tiltölulega einföldum aðferðum megi spara allt að 50% í olíunotkun íslenzkra fiskiskipa sem stunda togveiðar. Það eru gífurlegar fjárhæðir því fiskiskipaflotinn notar um 300 milljónir lítra á ári af olíu og ver til þess um ellefu milljörðum króna miðað við almennt verð á flotaolíu um þessar mundir.
Sparnaðurinn gæti því numið milljörðum króna, þegar nauðsynlegar breytingar væru um garð gengnar, en vissulega kemur töluverður kostnaður á móti til að byrja með.
"Með því að nota stærri skrúfur á skipin sem stunda togveiðar má ná fram miklum olíusparnaði. Stærstu skrúfurnar á íslenzkum skipum eru fjórir metrar í þvermál, en flest stóru og aflmiklu skipin hafa 3 til 3,5 m skrúfur. Það mætti spara gífurlegar fjárhæðir með því að stækka þær.
Það má taka dæmi af kolmunnaveiðunum, þar sem skipin þurfa mikla orku til að draga veiðarfærin á tiltölulega miklum hraða. Það væri auðvelt að spara 30% þeirrar orku sem nú er notuð og sennilega hægt að ná allt að 40% sparnaði," segja Sævar Birgisson og Kristinn Halldórsson hjá Skipasýn.
Þeir nefna einnig annan mikilvægan þátt, sem er hávaðinn sem stafar af skipunum. Ljóst sé að hann fæli fiskinn frá skipunum og því þurfi þau að draga stærra veiðarfæri til að ná honum, með tilheyrandi kostnaði.
"Það er stórmál fyrir íslenzka útgerð, ef það reynist, eins og svo sannarlega virðist, að hægt sé að auka aflann með hljóðlátari skipum um kannski 10 til 15%. Það þýðir í raun að hægt er að draga úr orkunotkun um 10 til 15% við að ná sama afla. Okkur finnst nauðsynlegt að Árni Friðriksson sé nýttur í að skoða þetta.
Hann hefur aflið til þess að draga stór veiðarfæri og er eitt hljóðlátasta skip í heimi," segja Sævar og Kristinn.