Evrópumótið í Málmey.
Norður | |
♠G4 | |
♥8753 | |
♦43 | |
♣108762 |
Vestur | Austur |
♠102 | ♠D98753 |
♥KG964 | ♥D102 |
♦95 | ♦6 |
♣Á543 | ♣DG9 |
Suður | |
♠ÁK6 | |
♥Á | |
♦ÁKDG10872 | |
♣K |
Suður horfir sjálfur á ellefu slagi og þarf ekki mikla hjálp frá makker til að ná þeim tólfta. Því er sjálfsagt mál að keyra í slemmu. Í leik Íslands og Wales stökk Bjarni Einarsson beint í sex tígla yfir multi-opnun austurs á tveimur tíglum. Útspilið var spaðatía. Bjarni spilaði beint af augum: tók einu sinni tromp og reyndi svo að stinga þriðja spaðann í borði. En vestur átti níuna í trompi og slemman fór einn niður. Hið sama gerðist víðast hvar í öðrum leikum, en þó ekki á hinu borðinu í leiknum við Walesbúa. Þar tók Tony Ratcliff kostulega stefnu í úrspilinu, sem bar óvæntan ávöxt. Sagnir gengu þannig:
Norður gefur; AV á hættu.
Vestur | Norður | Austur | Suður |
Magnús | Jourdain | Matthías | Ratcliff |
- | Pass | Pass | 4 grönd |
Pass | 5 lauf | Pass | 6 tíglar |
Pass | Pass | Pass |
Matthías Þorvaldsson passaði í byrjun og Ratcliff opnaði á ásaspurningu og sagði svo hálfslemmuna. Magnús Magnússon trompaði út. Nú virðist fátt eðlilegra en að reyna að stinga þriðja spaðann, en Ratcliff virtist vera sleginn einhverri blindu því hann tók strax annað tromp. Og síðan öll hin í hendingskasti. Vörnin þurfti að fara niður á fjögur spil án þess að vita mikið um hliðarspil sagnhafa, en í ljósi þess að Ratcliff hafði ekki reynt að trompa spaða taldi Matthías alla vega öruggt að fara niður á tvo spaða! En það var ekki aldeilis öruggt og Ratcliff fékk heldur óverðskuldaðan slag á spaðasexuna í lokin og 920 fyrir spilið.