Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
BJÖRN Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, er sammála Bertel Haarders, innflytjendaráðherra Dana, um að álit mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins sé pólitísk ráðgjöf en ekki lögfræðileg niðurstaða.

BJÖRN Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, er sammála Bertel Haarders, innflytjendaráðherra Dana, um að álit mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins sé pólitísk ráðgjöf en ekki lögfræðileg niðurstaða. Eins og áður hefur verið greint frá gagnrýndi mannréttindafulltrúi Evrópu dönsku útlendingalögin og þá sérstaklega þá reglu að fólk undir 24 ára aldri geti ekki fengið dvalarleyfi í Danmörku á grundvelli fjölskyldutengsla en sambærilegar reglur tóku nýlega gildi hér á landi.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram það álit lögfræðings Alþjóðahúss og prests innflytjenda að nauðungarhjónabönd hafi ekki verið stórt vandamál hér á landi. Björn bendir á að á undanförnum árum hafi Útlendingastofnun sent mál 24 einstaklinga til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um nauðungarhjónaband eða hjúskap í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis. "Stofnunin hefur haft mál 50-60 einstaklinga til umfjöllunar á seinustu þremur árum vegna grunsemda um slík hjónabönd en vegna ágalla á lögum hefur ekki þótt fært að aðhafast frekar í þeim málum. Ég veit ekki hvað lögfræðingur Alþjóðahúss eða prestur innflytjenda telja að þessi tilvik þurfi að vera mörg til að réttlæta hinar hertu reglur sem Alþingi samþykkti í vor," segir Björn og bætir við að í skýrslunni um mannréttindamál í Danmörku sé ekki sagt að 24-ára reglan brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu.