Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fylgist með Júlíusi  Jónssyni, forstjóra HS, lyfta hellu af lóðinni þar sem framkvæmdir áttu að hefjast.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fylgist með Júlíusi Jónssyni, forstjóra HS, lyfta hellu af lóðinni þar sem framkvæmdir áttu að hefjast. — Ljósmynd/Atli Már Gylfason
FYRSTA skóflustungan var tekin vegna byggingar stöðvarhúss Reykjanesvirkjunar í gær. Hellu var lyft í byggingarreit stöðvarhússins og var hún færð í samkomutjald þar sem Björn H.

FYRSTA skóflustungan var tekin vegna byggingar stöðvarhúss Reykjanesvirkjunar í gær. Hellu var lyft í byggingarreit stöðvarhússins og var hún færð í samkomutjald þar sem Björn H. Guðbjörnsson, stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja (HS), setti samkomuna og flutti ávarp. Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS, gerði næst grein fyrir byggingu virkjunarinnar. Júlíus segir helluna táknræna fyrir upphaf framkvæmdanna og verði henni komið fyrir í orkuverinu sem minnisvarða.

Kostar 10 milljarða

Orkuverið er 100 megavött að afli og kostar 10 milljarða króna, og verður það byggt í sex áföngum. Einn milljarður fer svo í kostnað við línuflutninga. "Þetta er álíka og að byrja á Svartsengi," segir Júlíus. Búið er að bora sjö af tólf borholum sem virkjaðar verða, og er reiknað með að Jarðboranir haldi áfram að bora eftir áramót.

"Það sem er að byrja núna eru byggingarframkvæmdir við einar fjórar byggingar. Reyndar er orkuverið sýnu stærst en það verður samtals 9.500 fermetrar." Þar af fara um 4.000 fermetrar í grunnfleti s.s. kjallara og jarðhæð. Önnur hæð verður 1.000 fermetrar að stærð. Um 4.500 fermetrar fara svo í tvær stöðvar, skiljustöð og undirstöður.

Bygging virkjunarinnar á að vera tilbúin eftir 647 daga að sögn Júlíusar, en samkvæmt samningi stendur til að hefja afhendingu á rafmagni til Norðuráls 1. maí 2006.