(Vopna)framleiðendur teygja sig inn í unglingaherbergin með markaðssetningu tölvuleikja á borð við Vígvöllur Víetnams eða Battlefield Vietnam. Börnin vaka en foreldrar sofa vært.

Vopnaframleiðendur leynast víða. Einna söluhæstu framleiðendur vopna heims hanna drápstól handa börnum, sem spila tölvuleiki. Nýlega settu þessir vopnaframleiðendur nýjan tölvuleik á markaðinn sem nú breiðist út um unglingaheiminn. Hann nefnist Vígvöllurinn í Víetnam eða Battlefield Vietnam og kemur í kjölfar afar vinsæls leiks sem nefnist Battlefield 1942. Á heimasíðu framleiðandans, EA GAMES', er leikurinn kynntur: "Þið óskuðuð eftir frekara stríði og með Vígvelli Víetnams færum við ykkur það." (www.eagames.com/official/battlefield/vietnam/us/). Leikmenn eru hvattir til að fara í stríð þar sem boðið er upp á meiri nánd en áður hefur þekkst í stríðsleikjum, meiri skotgetu, fleiri vopn, tæki og erfiðari bardaga við óvininn á skriðdrekum, þyrlum og orrustuvélum. "Grípið M-16 rifil, gerið Napalm-sprengju tilbúna, og búið ykkur undir grimman bardaga í Víetnam-stríðinu," skrifa (vopna)framleiðendur í lofi sínu á nýjustu afurðina sína.

Ungmenni eru m.ö.o. þjálfuð til að beita tölvuvopnum og til að berjast með því að setja sig í spor stríðsmanna í blóðugu stríði, sennilega án samþykkis uppalenda. Aðgangur þeirra að vopnunum er greiður, því sítenging heimilanna er víðtæk.

Í nýrri skýrslu Eurydice um tölvueign og -notkun barna og unglinga í Evrópu kemur fram að strax árið 2000 höfðu 95% fimmtán ára íslenskra unglinga aðgang að Netinu heima hjá sér. (Morgunblaðið 20.06.04). En gera má ráð fyrir því að sá hópur spili oft tölvuleiki. Önnur rannsókn sýnir að foreldrar íslenskra barna þekkja mun minna til tölvuleikja sem börn þeirra spila á Netinu en foreldrar barna á öðrum Norðurlöndum. 77% íslenskra stráka spila tölvuleiki þegar þeir eru á Netinu en 61% stelpna notar Netið mest til að senda og taka á móti tölvupósti. 61% strákanna vill helst spila hasarleiki. Þetta var niðurstaða SAFT rannsóknar um örugga netnotkun barna, sem stutt er af Saft Internet Action Plan- áætlun Evrópusambandsins (Morgunblaðið 20.12.03). Þar kemur einnig fram að 67% íslenskra barna segi að foreldrar þeirra fylgist ekki með netnotkun þeirra.

Vígvöllurinn í Víetnam er einn af þeim leikjum sem spilaðir eru á Netinu af íslenskum unglingum, sennilega án vitneskju foreldra. Í unglingaherbergjunum eru oftast öflugar tölvur og sítenging og fæstir foreldrar vita hvað þar fer fram, og þeir þekkja ekki hlutdeild rafrænna (vopna)framleiðenda á borð við Electronics Arts - sem gerir hörmungar almennings að gróðalind sinni.

Þjáning og dauði eru kjarni stríða, en þeim hluta er oftast haldið frá almenningi: Hann fær ekki að sjá eigin hermenn látna eða komast í návígi við þær þjáningar og örvinglan sem þeir og óbreyttir borgarar þurfa að líða. Engin bók, engin kvikmynd eða frásögn getur veitt raunverulega innsýn í þjáninguna. 58 þúsund bandarískir hermenn létu lífið í Víetnam og týndust eða tvöfalt fleiri en létust í Kóreustríðinu. Talið er að tæplega 225 þúsund Suður-Víetnamar hafi beðið bana í stríðinu og ein milljón Norður-Víetnama. Tæplega 10 prósent þjóðarinnar (1973) eða fjórar milljónir særðust eða létust sökum átakanna, flestir í Norður-Víetnam af völdum sprengjuregns Bandaríkjahers. Heil kynslóð ungra manna var þurrkuð út. Víetnam var ein af martröðum kalda stríðsins, því það voru Sovétríkin og Kína sem sáu Norður-Víetnömum fyrir vopnum og Bandaríkjamenn Suður-Víetnömum (m.ö.o. karlar í jakkafötum öruggir handan skrifborða). Suður-Víetnam féll að lokum í hendur Norður-Víetnam 30. apríl 1975; í Saigon sem jafnskjótt fékk heitið Ho Chi Minh. Síðustu Bandaríkjamennirnir yfirgáfu landið í þyrlum af þaki bandaríska sendiráðsins örfáum stundum fyrir uppgjöf. Einnig yfirgáfu 135 þúsund Víetnamar landið og á næstu fimm árum flúðu 545 þúsund landið. (Tímarit Morgunblaðsins, 04.07.04).

Nú hefur friður ríkt í áratug í Víetnam, en þjóð og land hefur ekki jafnað sig. Líf er ekki afturkræft, fjölskyldur og kynslóðir hafa liðið þjáningar og sár sem geta gróið, þurfa til þess áratugi.

Foreldrar sem hafa ábyrgðartilfinningu og orku til að sporna gegn áróðri og innrætingu (vopna)sölumanna, ættu að setja mörkin við tölvuleiki eins og Vígvöll Víetnam. Leikurinn birtir stríð sem leik, spennu og baráttu milli góðs og ills. Hann elur á hefndartilfinningu, og að gjalda illt með illu. Hann spornar gegn friðsemd og ábyrgðartilfinningu gagnvart náunganum. Hann elur á kynþáttafordómum og þeirri hugmynd að stríð séu lausn á vandamáli. Hann dregur úr virðingu fyrir mannslífum og skapar ranghugmyndir um mannlífið.

Ábyrgir uppalendur ættu að prófa leiki eins og Battlefield Vietnam og kanna hvort þeim líki við hann og hvort þeir telji hann skaðlausan fyrir blessuð börnin. Árið 2002 var öðrum tölvuleik lýst svo í The New York Times: "Grand Theft Auto: Vice City er leikur, þar sem öll landamæri siðmenntaðrar hegðunar hafa verið útmáð. Það má skjóta hvern sem maður vill, þar á meðal löggur. Menn fá að berja konur til dauða með hafnaboltakylfum. Það er hægt að hafa mök við vændiskonur og drepa þær svo (og fá peningana til baka)." Battlefield Vietnam er af sama toga, hann fer út fyrir öll mörk velsæmis og siðferðis. Níðst er á minningu um þjáningu og dauða saklausra.

Ég segi: Nei.

Eftir Gunnar Hersvein guhe@mbl.is