Selma Baldursson
Selma Baldursson
SELMA Baldursson er leikkona af íslenskum ættum sem starfar í Þýskalandi. Hún á íslenskan föður, Gunnlaug Stefán Baldursson arkitekt, og þýska móður. Selma er stödd þessa dagana á Íslandi og líkar vistin vel.

SELMA Baldursson er leikkona af íslenskum ættum sem starfar í Þýskalandi. Hún á íslenskan föður, Gunnlaug Stefán Baldursson arkitekt, og þýska móður. Selma er stödd þessa dagana á Íslandi og líkar vistin vel.

Selma er 28 ára gömul og hefur starfað við leiklist frá unga aldri.

"Já ég byrjaði að leika þegar ég var fimm ára gömul og lék þá í nokkrum sjónvarpsþáttum," segir Selma.

"Þegar ég var tíu ára fór ég svo að leika í Lindenstrasse-þáttunum."

Selma fór með hlutverk í umræddum sjónvarpsþáttum í sjö ár en þeir eru þekktir í heimalandi hennar sem og annars staðar í Evrópu. Þættirnir hafa gengið í hartnær tvo áratugi og eru sýndir vikulega enn þann dag í dag.

Selma hélt svo til leiklistarnáms í Vínarborg, þar sem hún bjó í fjögur ár. Eftir skólagönguna lá leiðin til austurhluta Þýskalands þar sem hún lék meðal annars í leikhúsuppfærslum á Shakespeare. Þá bjó hún í Bremen í tvö ár.

"Nú bý ég í Bonn og er sjálfstætt starfandi leikari," segir Selma.

"Ég hef hingað til sinnt leikhúsinu mest en var að fá mér nýjan umboðsmann og það getur verið að ég fari að reyna fyrir mér í sjónvarpi aftur."

Sem fyrr segir er Selma stödd hér á landi um þessar mundir.

"Þannig er mál með vexti að Sigrún Pálmadóttir söngkona, sem búsett er í Bonn, bað vin minn, píanóleikarann Florian Pestell, að leika undir hjá sér á tónleikum í Bolungarvík og ég slóst með í för. Ég er því bara í fríi," segir Selma.

Hún segir ferðinni svo heitið að Laxamýri, en þaðan er íslenska fjölskyldan hennar ættuð.

"Ég reyni að koma til Íslands eins oft og ég get því mér finnst svo gott að vera hérna," segir Selma.

"Mér finnst Ísland eitt fallegasta land í heiminum. Náttúran er svo stórbrotin, annað en í Þýskalandi þar sem náttúran er næstum engin."

Selma segir þó ekki sama hvenær ársins hún heimsæki landið.

"Ég hef einu sinni verið hér á landi yfir vetrartímann en það var hræðilegt. Það var dimmt allan sólarhringinn!" rifjar hún upp.

Selma segist ekki líta á Ísland sem eiginlegt heimaland sitt, til þess tali hún tungumálið ekki nógu vel.

"En mér líður mun betur hér en í Þýskalandi - svolítið eins og ég sé komin heim í hvert sinn sem ég kem," segir Selma.

Hún segist vel geta hugsað sér að búa á Íslandi einhvern tíma í framtíðinni.

"En þá helst yfir sumarmánuðina," segir hún og hlær.