BJÖRN Ingi Sveinsson borgarverkfræðingur segir óhjákvæmilegt að hafa umferðarljós á þeim slaufugatnamótum sem nú er verið að gera á mótum Hringbrautar, Snorrabrautar og Bústaðarvegar. Tvenn umferðarljós verða á gatnamótunum.

BJÖRN Ingi Sveinsson borgarverkfræðingur segir óhjákvæmilegt að hafa umferðarljós á þeim slaufugatnamótum sem nú er verið að gera á mótum Hringbrautar, Snorrabrautar og Bústaðarvegar. Tvenn umferðarljós verða á gatnamótunum.

Í Morgunblaðinu í gær sagði Árni Friðleifsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, að honum litist illa á að hafa umferðarljós á þessum gatnamótum, þau geti skapað flöskuhálsa og verið slysagildra. Árni sagði reynslu lögreglunnar af mislægum gatnamótum af þessu tagi vera þá að tjónatíðni aukist oft á tíðum frá því sem áður var. Einnig gagnrýndi hann að sjaldan væri haft samráð við lögreglu við hönnun umferðarmannvirkja.

Skapar ekki vandamál

Björn Ingi telur að gatnamót af þessu tagi hafi ekki skapað mikil vandamál. Umferðaróhöppum fjölgi hugsanlega eitthvað fyrst eftir að mannvirkin eru tekin í notkun, en það sé ekki viðvarandi ástand. "Umferðarljós stýra eðli málsins samkvæmt umferð og fólk þarf að hlíta þeim reglum sem gilda hverju sinni. Það eru kannski alltaf einhverjir sem ekki átta sig á því þegar hlutirnir eru nýir, en ég tel ekki að þetta sé ástand sem menn þurfi að hafa áhyggjur af," segir hann inntur eftir því hvort umferðarljósin séu slysagildra.

Björn Ingi segir að ómögulegt sé að komast hjá því að hafa umferðarljós á gatnamótunum. "Gatnamótin tækju miklu meira pláss og þá þyrfti að veita straumunum í þannig áttir að umferðin krossist aldrei. Gatnamótalausnirnar þarna eru flóknar út af því að plássið er ekki mikið og við erum að tengja saman nokkra strauma, bæði af Snorrabraut, Bústaðavegi og Hringbrautinni nýju sem og inn á gömlu Hringbrautina, sem aðgengi að spítalanum. Þetta kallar á þessar lausnir," segir Björn Ingi.

Annar ekki umferð

Hringtorg hefur verið nefnt sem möguleiki í stað mislægra gatnamóta. "Hringtorg var skoðað á sínum tíma, eins og margar aðrar lausnir og það var talið að það myndi ekki anna þeirri umferð sem um þessi gatnamót þarf að fara," segir borgarverkfræðingur.

Inntur eftir því hvort sjaldan sé haft samráð við lögreglu um hönnun umferðarmannvirkja segir hann að allar framkvæmdir sem ráðist sé í á vegum borgarinnar, séu lagðar fyrir samgöngunefnd til endanlegs samþykkis. "Á fundum samgöngunefndar situr einn af yfirmönnum lögreglunnar og hefur bæði málfrelsi og tillögurétt þannig að þeir hafa fullan aðgang að því sem við erum að gera. Ég tel að menn eigi bara að nýta sér það betur ef þeir telja brotalöm á því," segir Björn Ingi.