Ekki hefði verið gott að fá veggklæðninguna yfir sig þegar hún hrundi af húsinu.
Ekki hefði verið gott að fá veggklæðninguna yfir sig þegar hún hrundi af húsinu. — Morgunblaðið/Árni Torfason
MÖNNUM var nokkuð brugðið þegar klæðning á forsköluðu timburhúsi við Hverfisgötu gaf sig í gær og hrundi á gangstétt.

MÖNNUM var nokkuð brugðið þegar klæðning á forsköluðu timburhúsi við Hverfisgötu gaf sig í gær og hrundi á gangstétt. Enginn varð fyrir hruninu, en svo virðist sem sprungur í forsköluninni hafi valdið leka, sem síðan hafi leitt til þess að vírnet, sem hélt steypunni, ryðgaði í sundur.

Gunnar Þórðarson, einn íbúa hússins, segir að um tveir til þrír fermetrar af klæðningu hafi hrunið á stéttina. "Ef einhver hefði verið þarna á stéttinni hefði hann hugsanlega getað meiðst, en sem betur fer varð enginn fyrir þessu," segir Gunnar, sem kveðst hafa verið farinn að hyggja að því að rífa klæðninguna af. Nú hafi húsið hins vegar gefið sterklega í skyn nauðsyn slíkrar aðgerðar. "Við vorum búin að sjá þetta var að gliðna og vorum að spá í að hjálpa þessu niður, en svo varð þetta á undan. Nú liggur bara fyrir að hreinsa forskölunina af og láta bárujárnsklæðningu nægja. Þetta hefur verið gert í kringum 1940 og búið að hanga svolítið lengi á."