Í SUMAR hefur hvalur nokkur, stórhveli er óhætt að segja, haldið sig á Arnarfirði við bæjardyrnar á Hrafnseyri og Auðkúlu. Hefur hann leikið listir sínar skammt frá landi, en þar er mjög aðdjúpt.

Í SUMAR hefur hvalur nokkur, stórhveli er óhætt að segja, haldið sig á Arnarfirði við bæjardyrnar á Hrafnseyri og Auðkúlu. Hefur hann leikið listir sínar skammt frá landi, en þar er mjög aðdjúpt. Hefur mátt ganga nokkuð að því vísu eftir hádegi flesta daga. Stundum hefur hvalurinn einnig sést að morgni dags. Sl. laugardag synti hann hæga siglingu út Arnarfjörðinn með bakhlutann upp úr sjó öðru hvoru. Stundum leikur hann sér glatt með boðaföllum og blæs þá mikinn út um blástursholu sína. Heyrast þá oft hljóð lík þeim sem ísbirnirnir ráku upp í 1. apríl gabbinu fræga í Ríkisútvarpinu hér um árið. Þess á milli er bægslagangur og þá ýmist kafar hann eða rekur sporðinn upp úr sjólokunum. Stundum þegar strekkingsvindur er á fjörðinn syndir hann mótvind og sjást þá hvítar strokurnar beggja vegna, líkt og spíttbátur keyri.

Þegar þetta er skrifað, mánudaginn 19. júlí, var stórsýning hjá honum allan seinni part dagsins og langt fram á kvöld og varð margt manna vitni að henni. Það er vel þess virði að gera sér ferð í Arnarfjörð þessa dagana að sjá sýninguna hjá hinum arnfirska hval, þó að ekki sé hægt að ganga að honum vísum.

Þess er að minnast að Arnfirðingar voru annálaðir hvala- og selaskutlarar á sinni tíð. Þeir skutluðu hvali með handskutlum og voru líklega þeir einu sem það stunduðu hér á landi á 19. öld. Sömu hvalakýrnar komu árum saman inn á Arnarfjörð með kálfa sína. Þær voru af ýmsu reyðarkyni og þekktu heimamenn þær af sporðinum og gáfu þeim nöfn svo sem eins og Skeifa, Halla, Króka og Vilpa. Svo sagði Gísli á Álftamýri.

Síðasta hvalinn sem veiddur var hér við land með handskutli járnaði Matthías á Baulhúsum, bróðir Gísla, haustið 1894.

Faðir þeirra bræðra, Ásgeir Jónsson, sem bæði bjó á Hrafnseyri og Álftamýri, sonur séra Jóns Ásgeirssonar, var einn fræknasti hvalaskutlari þeirra Arnfirðinga á 19. öld. Hann náði um sína daga að skutla 37 hvali (Kjartansbók). Hefur það verið mikil búbót fyrir bjargarþrota heimili sem oft voru mörg.

HALLGRÍMUR SVEINSSON,

Hrafnseyri

Frá Hallgrími Sveinssyni: