"ÞETTA er virkilega ljótt, eiginlega alveg rosalegt," sagði Rebekka Þráinsdóttir, landvörður í Herðubreiðarlindum, en á leið þangað uppeftir, á kafla milli Grafarlandaár og Ferjuáss, eru mjög slæm sár í landinu eftir utanvegaakstur.

"ÞETTA er virkilega ljótt, eiginlega alveg rosalegt," sagði Rebekka Þráinsdóttir, landvörður í Herðubreiðarlindum, en á leið þangað uppeftir, á kafla milli Grafarlandaár og Ferjuáss, eru mjög slæm sár í landinu eftir utanvegaakstur.

Lögreglu á Húsavík var gert viðvart og kom hún á staðinn á þriðjudagskvöld, en talið er að umræddur utanvegaakstur hafi átt sér stað á tímabilinu frá kl. 16 til 17.30 þann dag.

"Það hefur ekki verið mikið um þetta á þessum slóðum og okkur finnst að þessi háttsemi sé á undanhaldi. Hins vegar virðist sem þeir sem þarna voru á ferð hafi gjörsamlega misst tökin," sagði Rebekka. Hún lýsti aðstæðum þannig að ekið hefði verið utan vegar á löngum kafla "og á öðrum stað hefur bíllinn farið nokkrum sinnum út af veginum, inn á sandana og upp um hlíðar og spænt þar í "áttur" og hringi. Þarna var greinilega bara verið að leika sér", sagði Rebekka.

Hjá lögreglu á Húsavík fengust þær upplýsingar að svo virtist sem jeppabifreið hefði verið ekið út af Öskjuleið, fyrst um 17 kílómetra frá hringveginum við svonefndan Ferjuás. Þar var bifreiðinni ekið í hringi og áttur á tveimur stöðum þannig að djúp hjólför mynduðust á um 200 metra kafla á hvorum stað. Eftir það var bifreiðinni ekið meðfram veginum og upp í hóla og hæðir, þannig að greina mátti ummerki eftir hana á 23 kílómetra kafla á svæðinu milli Ferjuáss og Grafarlandaár. Á löngum kafla hafði verið ekið aðeins í um 50 metra fjarlægð frá veginum, en annars staðar farið lengra, allt að 300 metra frá vegi. Lögregla telur að ökumaður hafi verið á mikilli ferð. Talsverð landspjöll voru unnin í lítið grónu melalandi en skemmdirnar eru allar innan Herðubreiðarfriðlands.

Vitni sáu til jeppabifreiðar á þessum slóðum á þeim tíma sem talið er að skemmdirnar hafi verið unnar að sögn lögreglu. Þá er vitað að um var að ræða bílaleigubíl og að erlendir ferðamenn hafi haft hann á leigu en þeir eru grunaðir um verknaðinn. Fólkið verður yfirheyrt áður en það heldur af landi brott.