Flugvélin virðist nokkuð heilleg, þrátt fyrir einhverjar brunaskemmdir.
Flugvélin virðist nokkuð heilleg, þrátt fyrir einhverjar brunaskemmdir. — Morgunblaðið/Guðrún Vala
KONA sem flaug lítilli flugvél í Borgarfirði í gær slapp að mestu ómeidd eftir brotlendingu skammt vestan við flugvöllinn í Húsafelli. Eldur kviknaði í vélinni á flugi og varð flugmaðurinn að nauðlenda á mel skammt frá bænum Hraunsási í Hálsasveit.

KONA sem flaug lítilli flugvél í Borgarfirði í gær slapp að mestu ómeidd eftir brotlendingu skammt vestan við flugvöllinn í Húsafelli. Eldur kviknaði í vélinni á flugi og varð flugmaðurinn að nauðlenda á mel skammt frá bænum Hraunsási í Hálsasveit.

Nauðlendingin gekk vel og laskaðist vélin lítið af þeim sökum, en brunaskemmdir eru einhverjar. Bergþór Kristleifsson, bóndi á Húsafelli, og Sigurður Jónsson, bóndi á Hraunsási, komu á slysstað og slökktu í glóðinni sem eftir var í vélinni með slökkvitæki, en eldurinn var, að þeirra sögn, að mestu leyti kulnaður þegar þeir komu á staðinn. Þá jusu þeir vatni á vélina til að kæla hana og tryggja þannig að eldur kæmi ekki aftur upp.

Atvikið varð klukkan 10.55 í gærmorgun og tilkynnti flugmaðurinn flugturninum í Reykjavík um atvikið og ástand mála eftir að allt var um garð gengið og sagðist hún vera ómeidd.

Reykur í þúsund feta hæð

Vélin fór frá Reykjavík kl. 10.11 og áætlaði flugmaðurinn að fljúga til Húsafells, þaðan til Selfoss og Blönduóss og síðan til baka til Reykjavíkur. Á leiðinni milli bæjarins Stóra-Kropps og Húsafells, þegar vélin var í þúsund feta hæð, varð flugmaðurinn var við reyk og nauðlenti vélinni skömmu síðar. Tilkynnti hún flugturni að eldur hefði komið upp við lendinguna. Flugmaðurinn beið komu lögreglunnar við slysstað og fór í skoðun á Heilsugæslunni í Borgarnesi. Rannsóknarnefnd flugslysa fer með rannsókn málsins.

Vélin er með einkennisstafina TF-UPS, af gerðinni Piper Cherokee, skráð 1980. Flugmaðurinn er einn eigenda vélarinnar.