Tvö varðskip er nú í höfn í Reykjavík og það þriðja, Ægir, er á leið til lands.
Tvö varðskip er nú í höfn í Reykjavík og það þriðja, Ægir, er á leið til lands. — Morgunblaðið/Eggert
VARÐSKIPIÐ Ægir er á leið til hafnar og þar með verður ekkert íslenskt varðskip nú á sjó. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands er afar óánægður með þessa stöðu og segir algjört lágmark að tveimur varðskipum sé haldið úti í senn.

VARÐSKIPIÐ Ægir er á leið til hafnar og þar með verður ekkert íslenskt varðskip nú á sjó. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands er afar óánægður með þessa stöðu og segir algjört lágmark að tveimur varðskipum sé haldið úti í senn. Hann segir Landhelgisgæsluna í fjársvelti. Samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna er hlutverk hennar að halda uppi almennri löggæslu á hafinu umhverfis Ísland, jafnt innan sem utan landhelgi.

Spurður hvort eftirlit með landhelginni sé fullnægjandi um þessar mundir segir Hafsteinn Hafsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, að það hljóti að vera matsatriði hverju sinni. Hann bendir á að gæslan hafi yfir takmörkuðum fjármunum að ráða. "Við reynum að ráðstafa þeim fjármunum sem við fáum á fjárlögum eins vel og kostur er," segir hann. Reynt sé eftir mætti að halda úti eftirliti, ef ekki með skipum þá með flugvél Landhelgisgæslunnar. Aðspurður segir hann að báðar þyrlur gæslunnar séu í lagi.

Verið að svelta Gæsluna

Samkvæmt upplýsingum frá Tilkynningarskyldunni voru rúmlega 500 íslensk skip og bátar á sjó í gær, bæði innan og utan landhelginnar. Þá voru 13 erlend skip á veiðum við landhelgislínuna, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Auk þess eru um 20 önnur erlend skip á loðnumiðunum norður af Horni, á leiðinni þangað eða til hafnar. Öll nema eitt eru norsk.

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, kveðst ósáttur við að öll varðskipin skuli vera bundin við bryggju og segir algjört lágmark að hafa tvö varðskip á sjó. Um þetta hafi sjómenn margoft ályktað. Varðskipin sjái jafnt um að verja landhelgina, fylgjast með umferð skipa þar um auk þess sem þau eru til taks ef óhapp verður. "Þeir sem skaffa peninga í þetta eru bara að svelta Gæsluna," segir hann. Margoft hafi komið fram að fé vanti til þess að Landhelgisgæslan geti uppfyllt lögbundið hlutverk sitt.

Sævar segist þó ekki endilega óttast um öryggi sjómanna. Á hinn bóginn hafi varðskipin margsannað gildi sitt þegar óhapp verði á sjó. Þá séu skipin nauðsynleg til að halda uppi eftirliti í og við landhelgina. Flugvélar komi að gagni en komi ekki staðinn fyrir varðskipin sem sinni margháttuðu eftirliti sem ekki sé hægt framkvæma úr lofti.

Hann segir löngu tímabært að stjórnvöld, yfirmenn Landhelgisgæslunnar og fulltrúar hagsmunaaðila setjist niður og skilgreini nákvæmlega hvert hlutverk Gæslunnar eigi að vera. Síðan verði stjórnvöld einfaldlega að leggja Gæslunni til nægilegt fé.