Vonandi verða þær Nína Ósk Kristinsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Hrefna Jóhannesdóttir á skotskónum en þær leika í fremstu víglínu.
Vonandi verða þær Nína Ósk Kristinsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Hrefna Jóhannesdóttir á skotskónum en þær leika í fremstu víglínu. — Morgunblaðið/Árni Torfason
OPIÐ Norðurlandamót landsliða kvenna í knattspyrnu undir 21 árs aldri fer fram hér á landi dagana 23.-29. júlí, en mótið fer fram á Norðurlandi. Úlfar Hinriksson, landsliðsþjálfari 21 árs landsliðs Íslands, hefur valið landsliðshópinn og það er óhætt að segja að íslenska liðið er ekki á flæðiskeri statt með sóknarleikmenn.

Margrét Lára Viðarsdóttir og Nína Ósk Kristinsdóttir, markahæstu leikmenn úrvalsdeildar kvenna, eru í hópnum ásamt Hrefnu H. Jóhannesdóttur sem var markahæsti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra en Hrefna leikur sem atvinnumaður með norska liðinu Medkila. "Þær þrjár eru vissulega mjög góðir sóknarleikmenn. Við leikum fjóra leiki á sjö dögum og ég mun þurfa að dreifa álaginu þannig að þær munu skipta leiktímanum á milli sín, þó að þær munu leika mismikið. Ég býst við að hafa aðeins einn sóknarleikmann í byrjunarliðinu í fyrsta leiknum gegn Englendingum. Í næsta leik á eftir er ekki ólíklegt að nýr sóknarleikmaður verði í byrjunarliðinu þar sem það er mjög stutt hvíld á milli leikja og það er mjög gott að hafa góða valkosti," sagði Úlfar Hinriksson.

Landsliðshópur íslenska liðsins:

Markverðir: Þóra B. Helgadóttir, Kolbotn (Noregi) og Guðbjörg Gunnarsdóttir, Val.

Varnarmenn: Erna B. Sigurðardóttir, Breiðablik, Málfríður E. Sigurðardóttir, Val, Ásta Árnadóttir, Val, Bryndís Bjarnadóttir, Breiðabliki, Pála Marie Einarsdóttir, Val.

Tengiliðir: Björg Ásta Þórðardóttir, Keflavík, Ólína G. Viðarsdóttir, Breiðabliki, Elín Anna Steinarsdóttir, ÍBV, Dóra María Lárusdóttir, Val, Dóra Stefánsdóttir, Val, Erla S. Arnardóttir, Sunnana (Svíþjóð) og Guðrún S. Viðarsdóttir, Þór.

Sóknarmenn: Margrét Lára Viðarsdóttir, ÍBV, Hrefna H. Jóhannesdóttir, Medkila (Noregi), Nína Ósk Kristinsdóttir, Val og Kristín Ýr Bjarnadóttir, Val.

Það er leyfilegt að hafa fjóra eldri leikmenn í hópnum og þær Þóra B. Helgadóttir, Hrefna H. Jóhannesdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir og Erna B. Sigurðardóttir voru valdar sem eldri leikmenn.

Það vekur athygli að KR á engan leikmann í íslenska liðinu en ástæðan fyrir því er sú að KR-ingar eru uppteknir í Slóveníu þar sem liðið tekur þátt í riðlakeppni í Evrópukeppni félagsliða. Líklegt er að fimm leikmenn frá KR hefðu verið valdir í landsliðshópinn ef KR væri ekki að leika í Slóveníu.