Tony Blair
Tony Blair
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tony Blair í tíu ár TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, fagnaði í gær þeim áfanga að hafa setið tíu ár sem leiðtogi Verkamannaflokksins.

Tony Blair í tíu ár

TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, fagnaði í gær þeim áfanga að hafa setið tíu ár sem leiðtogi Verkamannaflokksins. Bresku blöðin fjölluðu um feril Blairs af þessu tilefni og sögðu aðdáunarvert hversu lengi honum hefði tekist að endast sem leiðtogi Verkamannaflokksins í ljósi ýmissa erfiðra mála sem á honum hefðu dunið, ekki síst undanfarin misseri. Þar ber innrásina í Írak hæst nú um stundir en stuðningur Blairs við aðgerðir Bandaríkjamanna þar mæltist illa fyrir í Bretlandi. Blair varði þó enn ákvörðun sína í gær, þegar hann kom fyrir þingið, og sagðist sannfærður um að hún hefði verið rétt.

Ráðist á Camp Eden

ELDFLAUGUM var varpað á búðir danska hersins, Camp Eden, í Suður-Írak í gær, annan daginn í röð. Er talið að þar hafi íraskir uppreisnarmenn verið á ferð. Engin meiðsl urðu á mönnum. Camp Eden er nálægt bænum Al Qurnah, um 400 km suðaustur af hafnarborginni Basra. Tveir íslenskir sprengjuleitarfræðingar dvöldust þar um tíma í vetur við störf á vegum Íslensku friðargæslunnar. Í Bagdad sprakk bílsprengja um miðjan dag í gær, með þeim afleiðingum að þrír féllu. Þá biðu sjö Írakar og einn bandarískur hermaður bana í skærum í borginni Samarra í gærmorgun.

Fundu höfuð Bandaríkjamanns

YFIRVÖLD í Sádi-Arabíu tilkynntu í gær að höfuð Bandaríkjamannsins Pauls Johnsons, sem rænt var 12. júní sl. í höfuðborginni Riyadh, hefði fundist í frysti í ísskáp í húsi sem lögreglan gerði áhlaup á í fyrrinótt. Vitað var að Johnson hafði verið myrtur því myndband af morðinu á honum var birt á Netinu sex dögum eftir að honum var rænt. Lögreglan í Sádi-Arabíu drap tvo meinta hryðjuverkamenn í áhlaupi í Riyadh í fyrrinótt en ekki er ljóst hvort um sama áhlaupið var að ræða. Mun annar mannanna sem féllu hafa verið háttsettur liðsmaður öfgasamtaka og höfðu yfirvöld lengi haft áhuga á að handsama hann.

Mladic aftekur með öllu að gefa sig fram

RATKO Mladic, sem var yfirmaður hers Bosníu-Serba í Bosníustríðinu 1992-1995, mun aldrei gefa sig fram við stríðsglæpadómstólinn í Haag af fúsum og frjálsum vilja. Þetta sagði ónafngreindur embættismaður í Belgrad í gær en hann staðfesti jafnframt að yfirvöld í Serbíu hefðu átt í óbeinum samskiptum við Mladic um málið, þ.e. með því að koma skilaboðum til hans í gegnum vini hans og ættingja. Munu stjórnvöld í Belgrad hafa boðið Mladic, sem talinn er felast í Serbíu, fjárhagsaðstoð ef hann gæfi sig fram við dómstólinn. Mladic er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi, þ.ám. þjóðarmorð, í Bosníu-stríðinu.

Fækkað í breska hernum

STÖÐUGILDUM innan breska hersins verður fækkað um 19.000 á næstu fjórum árum en aðgerðirnar eru liður í uppstokkun hjá hernum, að því er Geoff Hoon, varnarmálaráðherra Bretlands, greindi frá. Með aðgerðunum er ætlunin að spara fjármagn og nútímavæða herinn.