Guðmundur Magnússon fæddist á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá 6. desember 1922. Hann andaðist á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 13. júlí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Egilsstaðakirkju 20. júlí.
Tengdafaðir minn, Guðmundur Magnússon, lést nokkuð skyndilega hinn 13. júlí síðastliðinn. Það er skrýtin tilfinning að hann sé allt í einu horfinn úr þessari jarðvist. Nú verður ekki lengur hringt úr Hlíðarhjallanum í Guðmund til þess að spjalla um daginn og veginn. Það var um sumarið 1970 er við hittumst fyrst. Þá kom ég til að heimsækja dóttur þína hana Önnu Heiði, sem síðar varð svo kona mín. Á milli okkar tókst strax mikil og góð vinátta sem átti eftir að standa yfir í 32 ár. Þú fórst með mig í ökuferð upp í Atlavík og síðan út í Hjaltastaðarþingá, sem var sveitin þín. Þar fæddist þú á bænum Hjartarstöðum og ólst þar upp. Fyrir neðan bæinn rennur áin Gilsá. Þar kenndir þú mér að renna fyrir lax og sýndir mér að til væru fleiri fisktegundir en þorskur og ýsa. En ég þekkti ekki annað á þessum árum. Drengirnir mínir eiga einnig góðar minningar um þig og Gilsá enda vildi sonur minn og nafni þinn fara þangað og dreifa rósum þar eftir að þú hafðir kvatt okkur. Þar fannst honum hann eiga bestu minningarnar um þig og þar vissi hann að þér leið alltaf vel.
Þú varst vel menntaður, lærður múrarameistari, búfræðingur frá Hólum og handavinnukennari frá Handíða- og myndlistaskólanum.
Þegar þú og þín elskulega kona, Aðaldís Pálsdóttir, tókuð þá ákvörðun að setjast að á Egilsstöðum var öllum ljóst að þar fór maður kraftmikill með góða menntun og tilbúinn að takast á við verkefnin. Guðmundur var strax mikill athafnamaður, hann var alls staðar í fararbroddi í sínu bæjarfélagi. Hann var meðal annars kennari, hann átti fyrstu traktorsgröfuna í bænum, stofnaði Rörasteypu Egilsstaða, Plastiðjuna Yl og var oddviti og sveitarstjóri til margra ára. Hann var einnig stofnandi að byggingarfélaginu Brúnás og með áræði sínu sem sveitarstjóri barðist hann fyrir borun eftir heitu vatni sem yljar Egilsstaða- og Fellamönnum enn í dag.
Þú varst mikill gleðimaður, á öllum þeim ráðstefnum og fundum sem þú sóttir varst þú alltaf í brennidepli með mannskap í kringum þig og þá var mikið hlegið. Ég get ekki lokið þessu öðruvísi en að segja hvað okkur svilunum þótti gaman að koma með þér í bílskúrinn þinn, þar var oft glatt á hjalla.
Elsku Dísa, þinn söknuður er mikill, þú stóðst þig frábærlega vel og hlúðir vel að þínum manni í hans veikindum. Votta ég þér og þínum börnum mína dýpstu samúð.
Reynir Sigurðsson.
Fjölskyldan var Guðmundi mikils virði. Börnum sínum og tengdabörnum var hann óslitið að hjálpa og aðstoða á fyrstu búskaparárum þeirra og reyndar ætíð síðan. Barnabörnin elskuðu afa sinn, sem gat sagt þeim svo skemmtilegar sögur að litprentaðar ævintýrabækur bliknuðu við hliðina á þeim sögum, sem oftar en ekki gerðust í Eiðaþinghánni, Fjarðarheiðinni eða Fellunum og persónurnar jafnt menn sem tröll og aðrar vættir. Þær eru margar stundirnar sem við höfum átt saman á þessum árum og margt kenndi hann mér og fræddi. Eitt gat ég þó kennt honum, en það var stangaveiði. Marga skemmtilega daga höfum við átt á veiðum og þá sérstaklega í Gilsánni, sem rennur við túnfótinn á Hjartarstöðum. Sú á var honum einstaklega kær.
Síðustu árin voru tengdaföður mínum erfið. Fyrir 8 árum veiktist hann alvarlega og varð ekki samur maður aftur. Það átti ekki vel við athafna- og framkvæmdamanninn Guðmund Magnússon að geta ekki gengið beint í verkin heilsunnar vegna. Hugurinn var óbugaður en líkaminn lét undan. Það var eins og hann fyndi að hverju stefndi upp á síðkastið. Þegar hugurinn fór einnig að láta undan fór hann oftar að tala um það að nú ætlaði hann að fara heim og þá var hann á leið heim í Hjartarstaði. Þótt hann hafi alist upp við erfiðleika var alltaf bjart yfir þeim minningum sem hann átti af æskuheimilinu og þangað leitaði hugurinn þegar degi tók að halla. Nú er hann leystur frá þraut og ég veit að hann er kominn heim á þann stað sem hann unni.
Með tengdaföður mínum er genginn einn af máttarstólpum Héraðsins, maður sem ekki krafðist verklauna fyrir hvert viðvik og vann af eldmóði að því að skapa hér gott mannlíf og atvinnulíf. Hann var svo lánsamur að eiga sér að lífsförunaut Aðaldísi Pálsdóttur, sem var stoð hans og stytta alla tíð, allt til enda. Hún vann verk sín hljóð og krafðist ekki athygli, en þeim mun betur studdi hún mann sinn og gerði honum kleift að sinna þeim mörgu verkum sem honum voru falin í þágu samfélagsins. Hennar er missirinn mestur. Að leiðarlokum þakka ég þau forréttindi að hafa átt Guðmund að tengdaföður, vini og lærimeistara og frábæran afa barnanna minna.
... orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Bjarni G. Björgvinsson.
Elsku afi.
Við kveðjum þig rík af ánægjulegum minningum. Það kom að því að hinum megin vantaði hæfileikaríkan mann eins og þig.
Allt sem þú tókst þér fyrir hendur gerðir þú af mikilli hugsjón og handlagni. Sama hvort þú varst að smíða, múra, kenna börnum eða stjórna heilu sveitarfélagi, þá voru verk þín alltaf þér til sóma og fyrirmyndar.
Það voru forréttindi fyrir okkur systkinin að alast upp í þinni návist og undir þinn leiðsögn. Þú kenndir okkur að skrifa fallega, lesa og veiða svo dæmi séu tekin. Þú varst sannkallaður afi af bestu gerð.
Sama hversu mikið var að gera hjá þér, þá hafðir þú alltaf tíma fyrir okkur, þú naust þess að kenna okkur allt með þinni lagni og þolinmæði.
Þú hefur verið Egilsstaðabæ til mikils framdráttar og fyrir verk þín hefur þú hlotið nafnbótina Heiðursborgari Egilsstaðarbæjar, það eru orð að sönnu.
Hjá þér og ömmu Dísu var alltaf gott að vera. Þið áttuð svo vel saman, alltaf svo góð við okkur og hvort annað. Það var alltaf mikið fjör í kringum þig og þú varst mikill sögumaður. Á kvöldin komu sögurnar á færibandi og munum við öll söguna um hinn dularfulla Brúsaskegg sem við fengum aldrei nóg af.
Vegna búsetu okkar í seinni tíð höfum við systkinin því miður ekki náð að umgangast þig eins mikið og við vildum. Á þessum árum hafa veikindi hrjáð þig. Það er því okkar ósk að þér líði betur núna og lofum við að styðja ömmu Dísu því hennar missir er mikill sem og okkar allra. Við vitum að nú getur þú dansað upp á klárinn rétt eins og þú lýstir svo skemmtilega um daginn.
Með þökk fyrir allt sem þú gafst okkur í gegnum tíðina, kveðjum við þig með söknuði í hjarta. Við biðjum Guð að varðveita þig og styrkja ömmu Dísu.
Minningin um þig afi lifir í hjarta og hugum okkar um ókomnar stundir.
Þín
Hafdís Hrönn, Egill Fannar
og Guðmundur Gauti.
Þú hafðir svo fallega og ljúfa rödd og augun full af hlýju.
Ég man hvað það var gott að sofna þegar þú hélst í höndina á mér og sagðir mér sögur. Oft sömu sögurnar, en aldrei varð ég þreytt á þeim.
Mikið sem ég hef verið heppin að eiga þig og ömmu að.
Ég á eftir að sakna þín sárt elsku afi minn.
Þín
Heiðdís Halla.
Hann afi minn og nafni, Guðmundur Magnússon, var góður afi. Skömmu eftir að hann lést fór ég að fletta myndaalbúmum heimilisins og fann þar margar góðar myndir sem munu hjálpa til við að halda minningu hans á lofti.
Afi var traustur og lofaði aldrei neinu upp í ermina á sér. Ef hann sagðist ætla að gera eitthvað þá stóð hann við það. Ein af mínum fyrstu minningum um þennan merka mann er þegar við fluttum inn í nýja húsið í Laufskógum, þá smíðaði afi minn handa mér sandkassa. Þá var ég þriggja ára og tók þátt í öllu sem við kom smíðinni. Við vorum miklir mátar ég og afi og hann var sá fyrsti til að taka mig aleinan með sér á veiðar út við Hjartastaði. Þar drógum við hvor sína bleikjuna á land. Þá var ég 8 ára og þeim degi gleymi ég aldrei. Afi var mikill sælkeri og ef hann var nálægt þá var maður yfirleitt með troðfullan túlann af sælgæti. Ég og vinur minn fundum það einu sinni út að ef skilgreina ætti hvernig einhver afi ætti að vera þá væri afi minn sennilega besta fyrirmyndin, vel í holdum með pípu, hatt og gleraugu og alltaf með nammi handa krökkunum. Afi reykti líka pípu og er það eini reykurinn sem mér finnst góð lykt af. Það var oft gaman í eldhúsinu hjá afa þegar maður sat á móti honum með jólaköku og mjólkurglas og lappirnar dingluðu fram af stólnum, afi með kaffið og pípuna og grínaðist við Dísu sína sem hann unni svo heitt.
Ég gæti eflaust skrifað bók sem héti Nafnarnir bara til að rifja upp allt sem við höfum brallað saman í þau 20 ár sem ég hef lifað. Ég mun alltaf muna þig. Ég veit að þú manst mig líka.
Kveðja,
Guðmundur Magni Bjarnason.
Föðurbróðir minn og kær frændi, Guðmundur Magnússon, er fallinn frá, síðastur sex barna þeirra Magnúsar Sigurðssonar og Ólafar Guðmundsdóttur frá Hjartarstöðum. Þegar ég hugsa til hans koma upp í hugann orðin frændrækni, gestrisni og greiðvikni en honum var afar annt um stórfjölskyldu sína. Faðir minn og Guðmundur voru yngstir systkinanna og miklir félagar en þau misstu föður sinn ung að árum og hefur það eflaust átt sinn þátt í samheldni þeirra ásamt sameiginlegum áhugamálum. Báðir voru fæddir kennarar, ef svo má að orði komast, sífræðandi afkomendurna, áhugamenn um land og þjóð, aldir upp í sönnum ungmennafélagsanda af einstaklega víðsýnni og vel lesinni móður og eldri systkinum. Þegar ég heimsótti frænda minn fyrir nokkrum dögum á Sjúkrahúsið á Egilsstöðum streymdi enn frá honum sama væntumþykjan og hlýjan þótt þrotinn væri að kröftum.
Fyrstu minningar mínar um Guðmund tengjast verslunarferðum foreldra minna í Egilsstaði þegar alltaf var komið við á Laufásnum og heilsað upp á frændfólkið, Guðmundur bauð til veislu og Dísa bar fram veitingar m.a. kleinur og parta og heimatilbúinn súkkulaðiís löngu fyrir daga ísskápa. Ýmis mál voru rædd og eitt er mér sérstaklega minnisstætt en þá deildu þeir bræður um beygingu nafnorðsins mær. Þótti mér dæmalaust að fullorðnir karlmenn skyldu geta velt sér upp úr slíkum hlutum en líklega hafa orðabækur og uppflettirit ekki verið við höndina eins og nú tíðkast. Þjóðmálin voru mikið rædd og framfarir ígrundaðar en aldrei man ég eftir að rætt væri um peninga eða peningaleysi enda voru þeir bræður ekki mjög uppteknir af því að safna veraldlegum auði þó þeir færu vel með fé. Þeir vildu veita vel og þeirra auður var mannauður enda voru þeir báðir góðir feður, tengdafeður og afar.
Á skólaárunum, þegar ég vann á Egilsstöðum á sumrin, stóð heimili þeirra Guðmundar og Dísu mér alltaf opið og stundum bjó ég í kjallaranum hjá þeim um tíma. Alltaf var frændi minn að hugsa um að gefa mér eitthvað að borða enda alinn upp af þeirri kynslóð sem kunni að meta það að hafa nógan mat og gott húsaskjól.
Guðmundur kom líka oft í heimsókn með fjölskylduna út í Hjartarstaði, þar sem Ólöf amma bjó hjá okkur, og fylgdist grannt með búskapnum þar. Þótti okkur krökkunum undrum sæta hversu vænt honum þótti um fjöllin, þúfurnar, lautirnar og fossana og hversu vel hann þekkti öll örnefni og kennileiti. En kannski skiljum við það betur nú þegar við heimsækjum æskuslóðirnar, öll búsett í Reykjavík. Ævinlega varð hatturinn eftir á hillunni í forstofunni þegar hann var farinn og pípulykt í húsinu. Minnir sú lykt mig gjarnan á þennan ágæta frænda minn sem flutti með sér menninguna innan frá Egilsstöðum og ók á fínum bílum. Við systkinin og Sólveig móðir okkar minnumst hans með virðingu og þökk og sendum Dísu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Una Þóra Steinþórsdóttir.
Það er sumar á Héraði, snemma á öldinni sem leið. Drengur um fermingu er notaður sem hestasveinn í vegagerð úti í Eiðaþinghá. Það er verið að þoka bílfærum vegi áfram út byggðina. Drengurinn Guðmundur Magnússon stendur allt í einu augliti til auglitis við móður sína, ekkjuna Ólöfu Guðmundsdóttir frá Hjartarstöðum. Hún er á leið til Seyðisfjarðar. Á meðan húsfreyjan á Hjartarstöðum hefur tal af sveitungum sínum þarna í góða veðrinu, gefur strákurinn Guðmundur sig einslega og ótilkvaddur á tal við verkstjórana. Glaður í bragði fer hann því næst til móður sinnar og afhendir henni allt sumarkaupið sitt til þessa án umyrða. "Aldrei á ævinni held ég að ég hafi verið ánægðari með ráðstöfun daglauna minna en í þetta sinn," sagði Guðmundur seinna á ævinni.
Þessi stutta frásögn lýsir svo vel Guðmundi Magnússyni frá Hjartarstöðum að óþarfi væri að bæta miklu við. Allt líf hans einkenndist af ósérhlífni, góðsemi og mannkærleika. Fjölskylda Ingibjargar móðursystur hans á Breiðdalsvík átti eðlilega mikið saman að sælda við Hjartarstaða-fólkið á liðinni öld. Og eftir að þeir bræður Guðmundur og Steinþór fóru að búa "við krossgötur" á Egilsstöðum urðu gestakomur frændfólks og annarra tíðar þar á bæjum.
Nú verður ekki sest aftur að morgunverðarborði hjá Guðmundi og Dísu að Laufási 2 eftir vinagistingu á neðri hæðinni.
Nú verður ekki oftar hlegið með þeim að bröndurum úr daglegu lífi yfir kaffibolla eða rifjaðar upp endurminningar frá liðinni tíð.
Guðmundur frændi hefur kvatt. Söknuður okkar er djúpur.
Engu skiptir í hvaða klæðum hann gengur fyrir dómarann mikla; sem hestasveinn, nágranni, leiðtogi eða heimilisfaðir. Í réttlátum heimi beggja vegna móðunnar miklu hlýtur mönnum eins og Guðmundi að vera tekið opnum örmum.
Aðaldísi og fjölskyldu sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Systkinin frá Selnesi:
Hrafnhildur, Margrét,
Guðbjörg og Heimir Þór.
Ég minnist fjölmargra heimsókna Guðmundar til Hjartarstaða þegar ég var að alast upp, hvernig hann gekk um tún og ræddi um allt sem viðkom búskapnum og var vel heima í öllum málum. Sem barn á þessum tíma þótti mér þessi mikli áhugi hans á æskuslóðunum á vissan hátt nokkuð undarlegur en skil hann betur eftir að hafa sjálfur staðið í svipuðum sporum síðar.
Guðmundur var einstaklega frændrækinn, gestrisinn og hjálpsamur. Á þessum tíma voru ekki jafn tíðar ferðir úr sveitinni í Egilsstaði og nú tíðkast en oftast var komið við á Laufásnum hjá þeim Dísu og Guðmundi, þegnar veitingar og málin rædd. Þangað þótti mér ætíð gott að koma.
Guðmundi kynntist ég enn betur eftir að foreldrar mínir brugðu búi og fluttust til Egilsstaða. Ég fékk fljótlega vinnu á vélum hjá Egilsstaðahreppi, eins og það hét í þá daga, og kynntist þá Guðmundi frænda mínum sem sveitarstjóra. Þá varð mér fljótt ljóst hversu einstaklega honum var lagið að koma málum áfram af samviskusemi og festu án þess að fara með miklum hávaða. Allan ágreining átti að leysa með sátt. Ég minnist fjölmargra skoðanaskipta okkar á milli um þær vélar sem ég var að vinna á og þótti úr sér gengnar og úreltar og krafðist úrbóta. Alltaf gaf Guðmundur sér tíma til að hlusta og rökræða málin. Um þessi samskipti má segja að hversu reiður sem ég var þegar gengið var til fundar við hann þá var ég ætíð sáttur þegar við skildum og hafði fengið skammt af góðum ráðum til næstu verka. Margt lærði ég af þessum samskiptum og verð fyrir það ætíð þakklátur.
Við hjónin sendu Dísu, börnum og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur.
Einar Birgir Steinþórsson.
Frá 1977 sat Guðmundur í undirbúningsnefnd að stofnun hitaveitu fyrir þéttbýlisstaðina Fellabæ og Egilsstaði en árið 1979 varð hann fyrsti formaður stjórnar Hitaveitu Egilsstaðahrepps og Fella og sinnti hann því starfi til ársins 1994 er hann lét af störfum 72 ára að aldri.
Ég átti því láni að fagna að kynnast Guðmundi Magnússyni sem félaga í samtökum er hétu Samband íslenskra hitaveitna. Ég var þá formaður veitustofnana Mosfellsbæjar og sátum við nafnarnir gjarnan saman á ráðstefnum og fundum og bárum saman bækur okkar. Eftir að ég tók við starfi hjá hitaveitunni fór ég oft með Guðmundi út að Urriðavatni. Fróðlegt var að heyra hann segja sögurnar af fyrstu borununum úti við Urriðavatn og af þeim erfiðleikum sem upp komu en leystust á farsælan hátt að lokum.
Stjórn og starfsmenn Hitaveitu Egilsstaða og Fella senda eftirlifandi eiginkonu ættingjum og vinum Guðmundar hlýjar samúðarkveðjur.
Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri HEF.