Ísak Elías Jónsson fæddist á Ísafirði 6. október 1931. Hann lést á heimili sínu í Svíþjóð 15. janúar síðastliðinn. Kveðjuathöfn var um Ísak Elías í Hveragerðiskirkju miðvikudaginn 4. febrúar. Ísak Elías verður jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Er það ekki undarleg tilviljun að í janúar sl. hringir Margrét frænka mín í mig og tilkynnir mér að faðir sinn hafi orðið bráðkvaddur úti í Svíþjóð þá fyrr um daginn. Um kvöldið fer ég ósjálfrátt að rifja upp kynni mín af Ísak. Strax morgunin eftir berst mér póstur og í honum er geisladiskur með kveðju frá honum. Þegar vinir og frændsystkin fóru að ræða saman kom í ljós að hann hafði sent mörgum þannig kveðju til styrktar Barnaspítala Hringsins. Þannig var hann frændi minn, hugsaði um aðra, hvernig get ég orðið að liði, hvernig get ég hjálpað?

Ég fór snemma að vinna hjá honum í verslun sem hann rak hér á Ísafirði í kringum 1960, þá unglingsstelpa, og seinna hugsaði ég um hve mikil ábyrgð mér var falin, þarna voru seld heimilistæki, byggingavörur og síðar ljósmyndavörur, hann var stundum ansi strangur en allt blessaðist þetta, þetta varð til þess að ég hef mestan hluta ævi minnar unnið í verslun.

Á þessum árum eignuðust þau hjón Pálína og hann sín fyrstu börn, Atla og Margréti, en eftir að þau fluttust í Hveragerði eignast þau Guðnýju. Leiðir hans og Pálínu skiljast og hann flytur til Svíþjóðar, þar kennir hann á hljóðfæri í nokkur ár, en aldrei var myndavélin langt undan og í gegnum tíðina hefur hann tekið ótal myndir sér til gamans. Þau hafa verið mörg ólaunuð störfin sem hann hefur unnið fyrir marga Íslendinga sem búsettir hafa verið í Svíþjóð, og einnig aðstoðaði hann marga vini sína í fossunum. Þeim ber sérstaklega að þakka góða vináttu og traust.

Fyrir nokkrum árum bauð hann nemendum í mastersnámi í sellóleik við Tónlistarskóla Ísafjarðar undir stjórn Erlings Blöndals Bengtsonar til kvöldverðar hér í Tjöruhúsinu á Ísafirði til minningar um móður sína, en hún og móðir Erlings voru vinkonur héðan frá Ísafirði og þeir jafnaldrar, hann hafði frétt af þessum mikla viðburði hér og vildi láta gott af sér leiða og kjörið tækifæri þarna. Því alltaf skipaði tónlistin mikinn sess hjá honum.

Ég kom nokkrum sinnum til hans til Borås og fannst mér alltaf eftir hverja heimsókn hann vera mjög einmana, en allt vildi hann gera fyrir vini og fjölskyldu. Hann hringdi að kvöldi 19. nóv. sl. til 95 ára móðursystur sinnar með árnaðaróskir og sagðist hitta hana hressa í sumar. Þannig verður það, hann er kominn heim og hin aldna frænka og fjölskylda hans fylgja honum síðasta spölinn, að hlið móður hans en þar mun hann hvíla.

Hafðu þökk fyrir allt, kæri frændi.

Far þú í friði.

Kristjana Sigurðar.