Helga Ágústa Hjálmarsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 2. júlí 1927. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 7. júlí síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Grafarvogskirkju 19. júlí.

Ég sit hér við kertaljós og dreypi á portvíni og hugsa til tengdamóður minnar til 33 ára en hún lést á Landspítalanum í nótt, hinn 7. júlí. Hugurinn hvarflar til baka, ótal svipmyndir renna fram á tjald endurminninganna.

Við kölluðum hana ömmu Helgu, og eftir að hún varð langamma kölluðum við hana stundum í gríni "amma langa" þar sem hún var ekki há í loftinu, heldur lágvaxin og einstaklega nett. Helga fæddist í Vestmannaeyjum og ólst þar upp, þar átti hún alla tíð sterkar rætur og hugurinn hvarflaði oft til bernskustöðvanna. Þegar Helga var unglingur bjó hún um tíma á Siglufirði, þar sem hún gekk í gagnfræðaskóla. Á Siglufirði kynntist hún manni sínum, Árna, þau stofnuðu heimili í Reykjavík en fluttust skömmu síðar til Siglufjarðar þar sem Árni var með síldarplan. Þau eignuðust synina Vigfús og Hjálmar. Þegar síldin hvarf tók fjölskyldan sig upp og flutti aftur á mölina.

Eftir að Helga og Árni settust að í Reykjavík vann Helga aðallega við skrifstofustörf, og yfir 20 ár starfaði hún á Skrifstofu Ríkisspítalanna, fyrst sem launafulltrúi og frá 1979 sem aðalféhirðir, allt þar til hún hætti störfum vegna aldurs. Meðan Helga starfaði þar lagði hún einnig sitt af mörkum fyrir starfsmannaráð LSP. Áttu Ríkisspítalar alla tíð stórt pláss í lífi hennar. Skömmu áður en Helga lét af störfum var hún heiðruð fyrir vel unnin störf, léttleiki hennar, vandvirkni og vinnusemi var sérstaklega tiltekin. Fjöldi þeirra samstarfsmanna sem kom til að kveðja Helgu þegar hún lét af störfum, bar vott um hversu vel hún var liðin á vinnustað sínum.

Amma Helga naut þess að vera með börnum og þau elskuðu að vera hjá henni. Þegar við Fúsi fórum í frí fannst henni ekki annað koma til greina en að taka við börnum okkar og heimili. Hún flutti inn til okkar, sama hvort það var í Heiðargerðinu eða í Hrísey, alltaf var hún reiðubúin að eyða sínum fríum til að vera hjá barnabörnunum, og þau nutu þess að dvelja undir verndarvæng ömmu sinnar, sem hafði tíma til að spjalla og spila. Ekki sakaði það heldur að Helga var mikill sælkeri og hafði alltaf nammi í töskunni sinni, sem unga fólkið naut góðs af. Systkinabörnin mín, sem búa erlendis, kölluðu hana alltaf ömmu Helgu og tók hún þeim eins og sínum barnabörnum. Glaðlega brosið hennar verður börnunum minnisstætt og það gleður okkur sem eftir erum að nokkrir afkomendur hennar hafa erft þetta fallega bros. Þegar ég heimsótti Helgu á Landspítalann, þar sem hún dvaldi síðustu vikurnar, var ávallt það fyrsta sem hún sagði; ,,segðu mér eitthvað frá krökkunum", því hún vildi fylgjast með því hvað þau höfðu fyrir stafni, hvert og eitt. Því verður seint á móti mælt að fátt ef nokkuð skipti hana meira máli en velferð þeirra.

En Helga fylgdist með fleiru en barnabörnunum, ég sagði oft í gríni við hana að hún væri fréttasjúk, hún las öll blöð og fylgdist með öllum fréttum og hún gat æst sig þessi ósköp yfir pólitík ef sá gállinn var á henni, oft fannst mér ótrúlegt að sjá hversu mikið skap rúmaðist í þessum fínlega líkama.

Helga hafði líka gaman af búðarápi, þær voru ófáar verslunarferðirnar sem við fórum í, bæði hér heima og erlendis, hún þreyttist aldrei á því að þræða verslanir, aðallega til að kaupa á barnabörnin og fjölskylduna. Stundum keypti hún föt á sig, einkum þó ef hún fann eitthvað í bláum litum, en blátt var uppáhaldsliturinn hennar.

Þegar Helga var ung langaði hana til að læra hjúkrun, það gladdi hana því sérstaklega þegar ég lauk hjúkrunar- og ljósmæðranámi. Ég dreg ekki í efa að Helga hefði getað orðið fyrirmyndar hjúkrunarfræðingur, en hún sýndi það líka að hún var lagin í höndunum og fór létt með að sauma eða prjóna föt á barnabörnin sín. Og henni var fleira til lista lagt, eitt minnnisstæðasta veisluborð sem ég hef sest að var dekkað af tengdamömmu, það var í ferð fjölskyldunnar um Sprengisand fyrir nokkrum árum. En þar töfraði hún fram veisluborð á stórum steini, kræsingar eins og rækjusalat, kjúklingur og soðbrauðið hennar góða, með laxi, rann ljúflega niður í þessum dýrðlega veislusal.

Í mörg ár voru Helga og Árnimeð sælureit rétt fyrir utan borgina, þar dvöldu þau langtímum saman við gróðursetningar. Þau ræktuðu trjágróður og grænmeti í gróðurhúsinu sem við fengum aldeilis að njóta afrakstursins af, gómsætar gulrætur, radísur og salat. Helga átti stóra fjölskyldu í kringum sig, systurnar Lillu, Ásu, Önnu Fríðu og Hlibbu mágkonu, en Eiríkur, bróðir Helgu, lést árið 1971. Þetta er mjög samheldin fjölskylda og ört stækkandi. Þau voru dugleg við að koma saman, halda þorrablót og ferðast saman út á land en í þessum hópi lék Helga á als oddi. Helga hafði mikla ánægju af að ferðast og hefði mátt gera meira af því. Eitt árið skellti hún sér m.a. ein til Þorbjargar, sonardóttur sinnar, þegar hún bjó í Seattle í Bandaríkjunum og naut Kalli Óli þess að fá "ömmu löngu" til sín. Hún fór einnig í utanlandsferðir með vinkonum sínum. Helgu fannst líka yndislegt að ferðast innanlands, m.a hafði hún ánægju af því að vera í Hrísey, bæði með okkur fjölskyldunni og einnig án hennar. Síðasta ferðalagið sem Helga fór í var síðastliðið sumar, en þá fór hún með kvenfélaginu Heimaey á bernskuslóðirnar i Vestmannaeyjum.

Fyrir um 20 árum greindist Helga með krabbamein og sýndi þá hve dugleg hún var, hún kvartaði lítið, þó oft væru að koma upp ýmis vandamál. Hún hafði góðan lækni, Kjartan Magnússon, sem hún gat alltaf leitað til og það veitti henni ómetanlegt öryggi hversu vel hún gat treyst honum. Síðustu dagar Helgu hér voru okkur öllum erfiðir en þó á ég mitt síðasta fallega minningarbrot um hana frá þeim tíma, þegar Atli, barnabarn mitt og yngsti afkomandi hennar, lagðist uppi í sjúkrarúm langömmu sinnar og burstaði hár hennar af ástúð og nærfærni meðan hún lygndi aftur augunum með sælusvip. Nú þegar elskulega Helga hefur kvatt þennan heim vil ég þakka henni einstaka vináttu og tryggð, allt frá því er ég kom í fjölskyldu hennar ung stelpa.

Ólöf Guðríður Björnsdóttir.