"Íslenska ákvæðið"
Sem kunnugt er fengu Íslendingar því til leiðar komið að inn í Kyoto-sáttmálann, eins og á endanum var gengið frá honum, var sett ákvæði sem heimilar þeim að losa allt að 1,6 milljón tonn af koltvísýringi vegna raforkufreks iðnaðar, í reynd fyrst og fremst vegna áliðnaðar, umfram þau mörk sem þeir gengust undir að halda losun sinna innan að öðru leyti. Þessi takmörkun við 1,6 milljón tonn er vægast sagt furðuleg þegar þess er gætt að sá áliðnaður sem losar þetta á Íslandi myndi að öllum líkindum losa margfalt meira ef hann væri annarsstaðar. En það er margt skrýtið víðar en í kýrhausnum!
Álvinnsla og losun gróðurhúsalofttegunda
Álframleiðslu fylgir losun gróðurhúsalofttegunda af tvennu tagi: (1) frá álverinu sjálfu og (2) vegna vinnslu raforkunnar sem það notar ef hún er unnin úr jarðeldsneyti. Losunin af fyrra taginu er sú sama hvar sem álverið er staðsett. Sú af síðara taginu er miklu meiri en hin fyrri ef raforkan er unnin úr eldsneyti. Hún er engin eða því nær engin ef raforkan er unnin úr vatnsorku, vindorku, sólarorku eða kjarnorku. Álveri á Íslandi fylgir þannig ávallt lítil losun.Notkun áls í farartækjum dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim, borið saman við að þyngri efni væru notuð í þess stað, sökum léttleika álsins. Þessi sparnaður í losun frá farartækjum er hinn sami hvernig sem álið var framleitt. En á móti honum kemur losunin sem fylgir framleiðslu álsins, þ.e. summan af (1) og (2) hér að framan. Heildarútkoman fyrir andrúmsloftið af álvinnslu er mismunurinn á þessu tvennu. Hún er jákvæð, þ.e. minni losun, ef raforkan til álvinnslunnar er ekki unnin úr eldaneyti en neikvæð, þ.e. meiri losun, ef hún er unnin úr eldsneyti.
Sparnaðurinn í losun af notkun áls í farartækjum er nálægt því að vera 6 kg CO2 á hvert kg af hrááli sem framleitt er. Losunin sem fylgir vinnslunni, þ.e. (1)+(2), er um 15 kg CO2 á hvert kg hrááls ef raforkan er framleidd úr kolum en 2 kg CO2/kg hrááls ef raforkan er framleidd úr vatnsorku við þær aðstæður sem ríkja hér á landi eða úr kjarnorku. Nettó útkoman fyrir andrúmsloftið er því 15 - 6 = 9 kg CO2/kg hrááls meiri losun ef rafmagnið er framleitt úr kolum en 2 - 6 = - 4 kg CO2/kg af hrááli, þ.e. 4 kg minni losun, ef rafmagnið er framleitt úr vatnsorku við íslenskar aðstæður eða úr kjarnorku.
Mismunurinn fyrir andrúmsloft jarðar á álframleiðslu með raforku úr kolum annarsvegar og vatnsorku við íslenskar aðstæður eða kjarnorku hinsvegar er því 15 - 2 = 13 kg CO2/kg af hrááli eða 9 - ( - 4) = 13 kg CO2/kg af hrááli eftir því hvort gengið er út frá brúttó eða nettó losuninni. Mismunurinn er hinn sami hvort heldur er gert, 13 kg CO2/kg af hrááli.
Fram undir síðustu aldamót (2000) kom meirihluti þeirrar raforku sem notaður var til álvinnslu í heiminum úr vatnsorku en rúmlega þriðjungur úr kolum. Á síðustu árum hefur hlutur vatnsorkunnar farið minnkandi og er nú kominn undir 50% en hlutur kolanna fer vaxandi. Þetta er að sjálfsögðu öfugþróun frá sjónarmiði baráttunnar gegn gróðurhúsaáhrifunum. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að í iðnríkjunum, þar sem milli 75 og 80% af álframleiðslu heimsins fer fram, er efnahagsleg vatnsorka nú þegar nýtt að 60 til 90 hundraðshlutum og þar yfir. Frekari virkjun vatnsorku mætir víða mikilli andstöðu umhverfisverndarsinna í löndum með kringum 60% nýtingu, t.d. Svíþjóð og Noregi.
Álvinnsla og vatnsorka í heiminum
Meginhluti óvirkjaðrar efnahagslegrar vatnsorku í heiminum er í þróunarlöndunum. Í sumum þeirra ríkir pólitískur óstöðugleiki, óstjórn og spilling, ættflokkaerjur og jafnvel borgarastyrjaldir sem koma í veg fyrir framfarir, þar á meðal nýtingu vatnsorkunnar í þessum löndum. Í flestum þessara landa hefur aðeins lítill minnihluti íbúanna rafmagn til almennra nota. Þegar ástandið batnar verður þar að sjálfsögðu breyting á. Raforka til almennra þarfa mun þar, eins og annarsstaðar, ganga fyrir þörfum orkufreks iðnaðar. Mörg þessara landa eru fjölmenn. Af þeim sökum er óvíst hve mikil vatnsorka verður afgangs til að framleiða rafmagn til áliðnaðar. Í fjölmennustu löndunum, eins og Kína, dugar óvirkjuð vatnsorka hvergi nærri til að mæta vaxandi almennri raforkuþörf.Í mörgum fjölmennum þróunarlöndum þarf að flytja fólk nauðugt frá heimkynnum sínum á svæðum sem fara undir miðlunarlón vatnsaflsstöðva. Slíkur þvingaður brottflutningur mætir skiljanlega andstöðu þeirra sem flytja þurfa. Andstaða þeirra nýtur líka víða stuðnings hópa fólks í iðnríkjunum. Í Kína þurfa t.d. 1,3 milljónir manna að flytja vegna Þriggja gljúfra virkjunarinnar.
Mörg rök hníga því að því að raforka úr vatnsorku til álframleiðslu verði í framtíðinni fyrst og fremst unnin í tiltölulega fámennum, en vatnsorkuauðugum, löndum eins og t.d. Kanada, Íslandi, sumum fámennari ríkjum Suður-Ameríku og víðar. Í sumum slíkum löndum verður þó raforka auðseljanleg til fjölmennari nágrannalanda til almennra þarfa fyrir hærra verð en orkufrekur iðnaður getur greitt. Þetta á við um Kanada og nokkur ríki Suður-Ameríku. Þetta á hinsvegar ekki við um Ísland.
Ísland er á margan hátt sérstætt vatnsorkuland. Það er háþróað efnahagslega og stjórnarfarslega og pólitískt stöðugt, fámennt, strjálbýlt og langt frá stórum raforkumörkuðum. Allir hafa þar ríkulega rafmagn til almennra þarfa. Aðeins um 15% efnahagslegrar vatnsorku hafa þar verið virkjuð nú (og 26% eftir Kárahnjúkavirkjun) og enn minni hluti efnahagslegs jarðhita til raforkuvinnslu, borið saman við 60-90% í öðrum iðnþróuðum ríkjum. Enginn þarf þar að flytja nauðugur frá heimkynnum sínum þótt vatnsorka sé virkjuð. Forsjónin hefur fært hverjum Íslendingi 100 sinnum meiri efnahagslega vatnsorku en hverjum jarðarbúa að meðaltali og ríkulegan jarðhita í ofanálag. Ef til er land þar sem hentugt er að framleiða rafmagn til álvinnslu þá er það Ísland.
Rætt hefur verið um að auka afköst álversins í Straumsvík í 460.000 tonn á ári. Hugsum okkur að það verði gert og að álverin á Grundartanga og í Reyðarfirði auki afköst sín í hið sama. Álvinnsla á Íslandi yrði þá 1.380.000 tonn á ári. Þetta gæti orðið á næsta áratug. Borið saman við að þetta ál væri framleitt með rafmagni úr kolum sparar vinnsla þess á Íslandi andrúmslofti jarðar 18 milljónir tonna af koltvísýringi á ári og 5,5 milljónir tonna borið saman við að álið væri alls ekki framleitt en þyngri efni notuð í farartæki. Heildarlosun Íslendinga árið 2001, þar með talin losun í millilandasamgöngum og orkufrekum iðnaði, nam 3,8 milljónum tonna af CO2.
Kyoto-bókunin
Í þessu ljósi hljómar "íslenska ákvæðið" nánast eins og skrýtla. Að það er engu að síður staðreynd sýnir aðeins hve meingölluð Kyoto-bókunin er. Megingalli hennar er skortur á hnattrænu viðhorfi til vandamáls sem er hnattrænt í eðli sínu. Einstök iðnríki taka á sig skuldbindingar um að draga úr losun innan sinna landamæra án tillits til þess, hvort með því er jafnframt dregið úr losun heimsins eða ekki. En hún er það eina sem skiptir máli fyrir gróðurhúsaáhrifin. Þetta tvennt þarf ekki að fara saman. Þegar Íslendingar hættu að hita hús með olíu drógu þeir úr losun koltvísýrings á Íslandi og jafnframt í heiminum. Ef Íslendingar legðu niður alla álvinnslu í landinu drægu þeir vissulega úr losun koltvísýrings á Íslandi og sú ráðstöfun kæmi fagurlega fram í Kyotobókhaldinu. En andrúmsloft jarðar yrði mun lakar sett eins og ljóst er af því sem rakið er hér að framan.Í Noregi hafa menn deilt um hvort reisa eigi þar í landi gaskynt raforkuver eða selja gasið til Þýskalands og kaupa rafmagn þaðan. Fyrri kosturinn hefur í för með sér meiri losun í Noregi en sá síðari ekki. Losunin yrði þá í Þýskalandi. Vegna sameiningar þýsku ríkjanna "viðmiðunarárið" 1990 hafa Þjóðverjar hagstæðari "viðmiðun" gagnvart Kyoto-bókuninni en Norðmenn og gætu því betur tekið á sig meiri losun án þess að rekast á skuldbindingar sínar. En andrúmsloftið er heldur lakar sett þar sem það er.
Meðan þróunarlöndin hafa engar losunarskuldbindingar tekið á sig geta iðnríkin uppfyllt skyldur sínar samkvæmt bókuninni að hluta með því að færa losandi starfsemi á gróðurhúsalofttegundum til þróunarlands og flytja inn afurðir hennar. Þannig gætu bandarískir raforkuframleiðendur reist ný raforkuver í Mexíkó í stað þess að reisa þau heima hjá sér og flutt raforkuna norður yfir landamærin. Og staðið sig vel gagnvart bókuninni. Andrúmsloftið yrði hinsvegar heldur lakar sett vegna meiri flutningstapa.
Þróunarlöndin og Kyotobókunin
Iðnríkin losa sem stendur bróðurpartinn af þeim gróðurhúsalofttegundum sem fara út í andrúmsloftið nú. Alþjóðaorkuráðið hefur áætlað að orkutengd losun koltvísýrings í heiminum muni vaxa um 39% milli 1990 og 2020. Hefur þá verið tekið raunhæft tillit, að mati ráðsins, til viðleitninnar til að hemja þessa aukningu. Af aukningunni er áætlað að 91% verði í þróunarlöndunum en 9% í iðnríkjunum. Mest verður hún í fjölmennustu þróunarríkjunum, Kína og Indlandi, þar sem þriðjungur mannkynsins býr.Orkukerfi iðnríkjanna er fyrirferðarmikið bákn sem ekki verður breytt nema á mörgum áratugum vegna þess hve hægt mannvirkin úreldast. Orkukerfi þróunarlandanna eru hinsvegar í uppbyggingu sem stendur og tækifæri er til að hafa áhrif á hvernig þau byggjast upp á næstunni. Í Bandaríkjunum, Japan og Evrópu er nú í þróun raforkuvinnslutækni sem gerir kleift að draga úr losun koltvísýrings um milli 80 og 90% frá núverandi tækni. Sökum hinnar hægu úreldingar núverandi raforkukerfa í iðnríkjunum munu líða áratugir þar til markaður verður fyrir þessa nýju tækni í iðnríkjunum í þeim mæli sem gerir fyrirtækjum sem framleiða slíkan búnað fært að endurheimta fé sitt. Í stóru þróunarríkjunum, einkum Kína og í minna mæli Indlandi, er hinsvegar markaður vegna uppbyggingarinnar þar. Það má því færa rök að því að það myndi skila miklu fljótari árangri í að hemja gróðurhúsaáhrifin að iðnríkin hjálpuðu þróunarlöndunum til að iðnvæðast á orkuskilvirkari hátt en þau sjálf gerðu á sinni tíð en að þau dragi úr sinni eigin losun sem hvort eð er hlýtur að gerast hægt eftir því sem núverandi orkukerfi þar úreldast. Til þess þarf skipulega samvinnu. Gert er ráð fyrir vísi að henni í Kyoto-bókuninni með CDM-ákvæðinu (um Clean Development Mechanism, hreinar þróunarleiðir). Í stað þess að vera minniháttar aukaákvæði ætti CDM að vera kjarni Kyoto-bókunarinnar. Ekki aðeins stuðla hreinar þróunarleiðir að því að ný orkuskilvirk kerfi byggist upp í þróunarlöndunum í stað þess að eldri tækni verði tekin þar upp, heldur stuðla þær um leið að því að ný tækni þróist hraðar en ella og nái fyrr fótfestu í núverandi iðnríkjum. Jafnframt er þessi nálgun líklegri en núverandi bókun til að hljóta stuðning í stærstu núverandi iðnríkjunum, ekki síst Bandaríkjunum, þar sem þessi nýja tækni á uppruna sinn að stærstum hluta enda þótt Japan og Evrópusambandsríkin eigi þar einnig verulegan hlut að máli.
Í rauninni má færa góð rök að þeirri staðhæfingu að viðleitnin til að hemja gróðurhúsaáhrifin sé vonlítil, að ekki sé beinlínis sagt vonlaus, án þess að fjölmennustu ríki heims, Kína og Indland, þar sem þriðjungur mannkynsins býr, eigi formlega hlut að henni. Kína stefnir nú óðfluga í að verða mesta efnahagsveldi og stærsti markaður heims innan ekki mjög margra áratuga. Raforkunotkun í Kína jókst um 15% árið 2003. Nærri 70% raforkunnar eru unnin úr kolum. Búist er við að orkunotkun í heild muni tvöfaldast þar fram til 2020.
Lokaorð
Nú er rætt um hvernig við Íslendingar getum dregið úr losun okkar, t.d. með bindingu koltvísýrings í skógum sem ýmist eru ræktaðir í því skyni sérstaklega eða í öðrum tilgangi jafnframt. Það er út af fyrir sig gott og blessað. En mikilvægt er í þessu sambandi að missa ekki sjónar á því sem rakið er hér að ofan að líklega er fljótvirkasta leiðin til að vinna bug á gróðurhúsaáhrifunum sú, að iðnríkin hjálpi núverandi þróunarlöndum, einkum þeim fjölmennustu þeirra, til að iðnvæðast á orkuskilvirkari hátt en þau sjálf gerðu á sínum tíma. Það er t.d. spurning hvort Íslendingar ná ekki fram meiri samdrætti í heimslosuninni fyrir sama pening með því að hjálpa öðrum til að nýta jarðhita í stað eldsneytis úr jörðu en með því að draga úr losun í fiskveiðum og samgöngum á Íslandi.En langstærsta hugsanlega framlag Íslendinga í þessu efni er þó að hýsa hér á landi allan þann áliðnað sem við megum. Í samanburði við það framlag eru það smámunir sem við náum með öðrum ráðstöfunum.
Jakob Björnsson skrifar um áliðnað og umhverfismál
Höfundur er fv. orkumálastjóri.