Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Arna Hauksdóttir skrifa um stjórnmál: "SÚ ákvörðun Helgu Árnadóttur að bjóða sig fram til formanns Heimdallar, stærsta aðildarfélags Sjálfstæðisflokksins, gladdi okkur mjög."

SÚ ákvörðun Helgu Árnadóttur að bjóða sig fram til formanns Heimdallar, stærsta aðildarfélags Sjálfstæðisflokksins, gladdi okkur mjög. Helga er prýdd öllum þeim kostum sem við teljum nauðsynlega til þess að laða fólk að starfi flokksins jafnt sem baráttuhug fyrir frjálslyndum hugsjónum Heimdallar. Hún hefur mikla reynslu af starfi flokksins og af verkum sínum hefur hún getið sér góðan orðstír. Við höfum mikla reynslu af samstarfi við Helgu og treystum henni vel til verka.

Allir velkomnir

Sú áhersla Helgu að bjóða alla velkomna að framboði sínu er það sem Heimdallur og Sjálfstæðisflokkurinn þurfa á að halda. Við teljum það mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn þjappi sér saman að baki forystu og stefnu flokksins á komandi árum. Helga er kjörin til þess að leiða fram öflugan hóp ungra sjálfstæðismanna og styrkja starf Heimdallar enn frekar.

Mikið er rætt um laka stöðu kvenna í stjórnmálum þessi misserin. Við höfum lengi vitað að mikið er af öflugum konum í starfi ungra sjálfstæðismanna og því ánægjulegt að sjá Helgu bjóða sig fram til forystu meðal þeirra. Nái Helga kjöri verður hún önnur konan í 77 ára sögu Heimdallar til þess að gegna formannsembættinu. Það er ekki á hverjum degi sem ung kona býður sig fram til forystustarfa á sviði stjórnmálanna og við hvetjum Heimdellinga og ungt fólk með áhuga á starfi Sjálfstæðisflokksins að kynna sér störf og áherslur Helgu á vefsíðu hennar www.helgaarna.is.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Arna Hauksdóttir skrifa um stjórnmál

Þorbjörg Helga er varaformaður SUS, Arna er fyrrverandi varaformaður SUS.