ÍSLENSKA 16 ára landslið kvenna í körfuknattleik lagði Íra að velli í gær nokkuð sannfærandi með 86 stigum gegn 58 en næsti leikur liðsins á Evrópumótinu er á laugardag gegn Englendingum.

ÍSLENSKA 16 ára landslið kvenna í körfuknattleik lagði Íra að velli í gær nokkuð sannfærandi með 86 stigum gegn 58 en næsti leikur liðsins á Evrópumótinu er á laugardag gegn Englendingum. Gengi liðsins hefur til þessa verið afar gott á mótinu sem fram fer í Eistlandi og aðeins einn leikur hefur tapast, gegn Litháen. Síðasti leikur liðsins verður gegn Svíum en alls hefur íslenska liðið leikið 6 leiki til þessa í B-deild mótsins og kemst efsta liðið í A-deild. Liðið hefur leikið gegn Hollandi, Lettlandi, Eistlandi, Finnlandi, Litháen og Írlandi.

Helena Sverrisdóttir úr Haukum var stigahæst í íslenska liðinu með 27 stig, 21 frákast og náði knettinum 5 sinnum frá andstæðingum liðsins. María Ben Erlingsdóttir úr Keflavík skoraði 18 stig og tók 9 fráköst. Ragnheiður Theódórsdóttir úr Keflavík skoraði 11 stig, Ingibjörg Vilbergsdóttir úr Njarðvík var með 9 stig og Bára Fanney Hálfdánardóttir úr Haukum skoraði 8 stig og geigaði ekkert skot hennar í leiknum. Helena er stigahæsti leikmaður mótsins með 30 stig að meðaltali en næsti leikmaður er með 22,3 stig að meðaltali. Að auki er Helena frákastahæsti leikmaðurinn með 17 fráköst að meðaltali, flesta stolna bolta eða 4,8 að meðaltali og flestar stoðsendingar eða 4,8 að meðaltali.