BJÖRN Hlynur Haraldsson fer með hlutverk Óttars Þórs, fótboltakappans sem kemur út úr skápnum.
"Handritið er frábært. Þetta verður mjög skemmtileg mynd, nema við klúðrum þessu og við eigum ekkert eftir að gera það," segir Björn Hlynur.
Hann spilar fótbolta í myndinni og ætti honum ekki að verða skotaskuld úr því. "Ég æfði alltaf með Þrótti og ætlaði mér nú alltaf að fara langt. Svo hefði ég kannski þurft meiri hæfileika til að komast lengra, ég veit það ekki. Þetta er gamall draumur að geta tekið þátt í svona fótboltamynd. Allir strákar sem hafa einhvern tímann spilað fótbolta í lífinu hafa ætlað að verða atvinnumenn í fótbolta. Svo fjarar það mishratt út hjá mönnum," segir Björn Hlynur um fótboltaferilinn.
"Ég fór aðeins á æfingu hjá KR um daginn. Það var mjög áhugavert. Svona bara upp á djókið, það hjálpar aðeins að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig. Svo tökum við senu hérna á KR-vellinum þar sem ég fæ að skora mark. Það er gamall draumur," segir Björn Hlynur, sem þannig fær tvo gamla drauma uppfyllta með þátttöku í myndinni.
Hann segist ekki telja að staðan, sem persónan sem hann leikur er í, sé erfið. "Ég veit það svo sem ekki, menn hafa sagt mér sem hafa komið út úr skápnum að það sé bara mjög losandi og þægilegt."
Með önnur aðalhlutverk í myndinni fara Helgi Björnsson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Arnmundur Ernst, Maríus Sverrisson, Sigurður Skúlason, Björk Jakobsdóttir, Hilmar Jónsson, Stefán Jónsson og fleiri.