"ÉG hef aldrei komið til Íslands áður. Þetta er mjög spennandi. Okkur líst vel á það sem við höfum séð síðan við komum í morgun," sagði Halvor Buskov, sem mun næstu þrjár vikurnar ferðast hringinn í kringum Ísland í húsbílnum sínum, í fylgd 113 annarra hjólhýsa.
Buskov segir mikinn sjarma vera yfir þessum ferðamáta. "Við getum tekið húsið okkar með og búið í bílnum, svo ferðumst við um á milli tjaldsvæða hér á Íslandi á milli þess sem við skoðum okkur um í náttúrunni," segir hann.
Inntur eftir því hvort ekki verði erfitt að finna tjaldsvæði fyrir allan þennan hóp segir Buskov að það sé allt skipulagt fyrir fram. Húsbílaeigendurnir eru frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð og þekkjast þar sem þeir eru í sama klúbbi. Klúbburinn hefur aldrei áður farið til Íslands. "Það verður alveg örugglega komið hingað aftur á næsta ári, því það komust ekki allir með sem vildu," segir hann.