TÓNLISTARNÁMSKEIÐ fyrir börn eru orðin fastur liður á sumrin í Skálholti undir handleiðslu Lilju Hjaltadóttur. Nú lýkur senn fjórtánda sumrinu. Tvö námskeið voru haldin í júní og þrjú verða í ágúst, hið fyrsta hefst á morgun, laugardag.

TÓNLISTARNÁMSKEIÐ fyrir börn eru orðin fastur liður á sumrin í Skálholti undir handleiðslu Lilju Hjaltadóttur. Nú lýkur senn fjórtánda sumrinu. Tvö námskeið voru haldin í júní og þrjú verða í ágúst, hið fyrsta hefst á morgun, laugardag.

Fjölmargir íslenskir kennarar koma að þessum viðburði en gestakennari í sumar hefur verið Heather Figi frá Washington. Hún er sérfræðingur í "Music Mind Games" sem er aðferð til að kenna ungum nemendum undirstöðuatriði í tónfræði á lifandi hátt. Auður Hafsteinsdóttir hefur verið einn af kennurunum undanfarin þrjú ár og segir námskeiðið hafa algera sérstöðu hér á landi. "Hér er unnið gríðarlega gott þroska- og forvarnarstarf fyrir börnin. Hingað koma krakkarnir margir hverjir ár eftir ár og mörg hver hafa tengst vináttuböndum í gegnum tíðina. Námskeiðin eru flest ætluð Suzukinemum, en þau sækja einnig lengra komnir nemendur. Yngri hóparnir eru aðallega Suzukinemar en þeir sem ég kenni eru hættir í því kerfi, þá margir komnir á háskólastig. Um 70 ungmenni hafa í sumar sótt námskeiðin, sem standa yfir u.þ.b. fjóra daga. Börnin læra að taka sig alvarlega og vinna eins og fullorðið fólk, bæði hvað aga og vinnu snertir, en Lilja hefur þann sérstaka eiginleika að geta blandað saman spilagleðinni og metnaði. Það má svo sannarlega segja að þessi námskeið séu eins og vítamínsprauta fyrir veturinn, bæði fyrir nemendur og kennara," segir Auður.