RÚSSNESK stjórnvöld drógu í gær til baka fyrri ákvörðun sína um að forsvarsmönnum olíurisans Yukos yrði veittur aðgangur að bankareikningum dótturfélaga fyrirtækisins.

RÚSSNESK stjórnvöld drógu í gær til baka fyrri ákvörðun sína um að forsvarsmönnum olíurisans Yukos yrði veittur aðgangur að bankareikningum dótturfélaga fyrirtækisins. Þessi sinnaskipti yfirvalda í Moskvu ollu miklu umróti á mörkuðum og í New York rauk olíuverð þegar upp, fór um tíma í 44,5 dollara fatið sem er það hæsta, sem skráð hefur verið á markaði í New York. Við lokun markaðarins var verðið lítið eitt lægra.

Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins rússneska kom flestum í opna skjöldu. Í yfirlýsingu frá Yukos á miðvikudag kom fram að ráðuneytið hefði heimilað fyrirtækinu aðgang að eigin bankareikningum þannig að hægt yrði að halda rekstri dótturfélaga Yukos áfram og greiða af skattaskuld þess. Dómsmálaráðuneytið neitaði því hins vegar í gær að nokkur slík ákvörðun hefði verið tekin og sagði að reikningar Yukos yrðu áfram frystir.

Skipun að ofan

"Það blasir við að einhver í ráðuneytinu hefur fengið skipun að ofan," sagði Erik Wigertz hjá fjárfestingafyrirtækinu United Financial Group og var þar að vísa til ráðamanna í Kreml. "Ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að leyfa Yukos að anda," sagði hann enn fremur. "Hættan á því að Yukos neyðist senn til að hætta útflutningi [olíu] er áfram til staðar."

Fjármál Yukos og helstu eigenda þess hafa verið til rannsóknar hjá rússneskum dómstólum í meira en ár. Er það krafið um ógreidda skatta, hugsanlega á áttunda hundrað milljarða ísl. kr., en við þeirri kröfu hefur fyrirtækið ekki getað brugðist vegna þess að eigur þess hafa verið frystar.

Moskvu. AFP.