"SVEITARFÉLÖGIN tapa tekjum vegna þess hve margir einstaklingar hafa breytt rekstri sínum í einkahlutafélög og greiða því í auknum mæli fjármagnstekjuskatt til ríkisins en útsvarsgreiðslur þessara einstaklinga hafa á hinn bóginn dregist verulega...

"SVEITARFÉLÖGIN tapa tekjum vegna þess hve margir einstaklingar hafa breytt rekstri sínum í einkahlutafélög og greiða því í auknum mæli fjármagnstekjuskatt til ríkisins en útsvarsgreiðslur þessara einstaklinga hafa á hinn bóginn dregist verulega saman. Við fullyrðum að sveitarfélögin séu að verða af 800 milljónum til einum milljarði króna árlega vegna þessa," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um laka afkomu sveitarfélaga á síðasta ári.

"Önnur skýring er sú að íbúum hefur fækkað í nokkuð mörgum af millistórum sveitarfélögum sem gerir það að verkum að þau verða af tekjum. Útsvarið er auðvitað veigamesti tekjustofn sveitarfélaga."

Eins og fram kemur í tilkynningu frá sambandinu eru það millistór sveitarfélög með um 1.000-5.000 íbúa sem sýna lakasta afkomu. "Það hefur verið viðleitni þessara þéttbýlisstaða í dreifbýli að halda uppi svipaðri þjónustu og í stærri sveitarfélögum á suðvesturhorninu." Að sögn Vilhjálms eiga þessi sveitarfélög oft óhægt um vik að draga úr þjónustu þrátt fyrir fækkun íbúa, og þar með kostnaði, þrátt fyrir að tekjur lækki vegna minni skatttekna.

Þá nefnir hann að kostnaður vegna verkefna á sviði umhverfismála sé hár, einkum vegna alþjóðlegra skuldbindinga. Aðild að EES-samningnum hafi til dæmis gert það að verkum að kostnaður sveitarfélaganna vegna sorphirðu og fráveitumála hefur aukist. "Það hafa ekki komið neinir sérstakir tekjustofnar á móti. Þótt sveitarfélögin innheimti gjöld vegna þjónust og framkvæmda á þessu sviði þá eru þau ekki nema óverulegur hluti af heildarkostnaði."