LEYSINGARNAR í Jökulsá á Dal þessa dagana eiga sér hliðstæðu, samkvæmt upplýsingum sem Óli G. Blöndal Sveinsson á rannsóknadeild Landsvirkjunar og Sverrir Óskar Elefsen hjá vatnamælingum Orkustofnunar öfluðu fyrir Morgunblaðið.

LEYSINGARNAR í Jökulsá á Dal þessa dagana eiga sér hliðstæðu, samkvæmt upplýsingum sem Óli G. Blöndal Sveinsson á rannsóknadeild Landsvirkjunar og Sverrir Óskar Elefsen hjá vatnamælingum Orkustofnunar öfluðu fyrir Morgunblaðið. Vatnsrennslið í gær var að hámarki um 930 rúmmetrar á sekúndu en síðustu stórleysingar voru í júlí 1991 þegar rennslið var mest 1.021 rúmmetrar á sekúndu. Mesta rennsli til þessa í ánni er talið hafa verið sumarið 1977 er það fór í 1.070 rúmmetra á sekúndu.

Rennslismælar Orkustofnunar eru við Brú í Jökuldal. Klukkan 19 í gærkvöld var rennslið í Jöklu á þeim stað 852 rúmmetrar á sekúndu, eða 60 rúmmetrum meira en á sama tíma daginn áður.

Rennsli í Jöklu sumarið 2003 var yfir meðallagi áranna 1998-2002 og að sögn Óla og Sverris stefnir allt í að svo verði einnig í sumar.

Í júlí árið 1991 var rennslið í Jöklu að hámarki í 800 til 1.000 rúmmetrum fjóra daga í röð. Óli og Sverrir segja leysingarnar þetta sumarið því eiga sér hliðstæðu og það muni ráðast af veðurfari næstu daga og vikna hversu lengi ástandið varir.