ÁFORMAÐ er að reisa sambýli fyrir fatlaða á lóðinni Birkimörk 21-27 í Hveragerði, og fagnar bæjarráð því sérstaklega að félagsmálaráðuneytið hafi nú staðfest þá fyrirætlun sína við bæinn.

ÁFORMAÐ er að reisa sambýli fyrir fatlaða á lóðinni Birkimörk 21-27 í Hveragerði, og fagnar bæjarráð því sérstaklega að félagsmálaráðuneytið hafi nú staðfest þá fyrirætlun sína við bæinn. Byggingin verður um 400 fermetrar, og er áætlað að framkvæmdir hefjist í lok árs 2004 eða í byrjun næsta árs.

Í bókun bæjarráðs um málið kemur fram að sambýlið muni bæta þjónustu við fatlaða í bænum mikið, auk þess sem til verði allt að átta til tíu stöðugildi starfsmanna við sambýlið.

Samhliða úthlutun á lóðinni fól bæjarráð Hveragerðisbæjar starfsmönnum bæjarins að setja af stað gerð útboðsgagna vegna framkvæmda á lóðinni, sem stendur við Birkimörk, nýja götu sem liggja mun vestan Hraunbæjarlands, sunnarlega í Hveragerði.