George W. Bush
George W. Bush
Síðustu viðvaranir stjórnvalda í Bandaríkjunum vegna hugsanlegra árása hryðjuverkamanna bin Ladens á höfuðstöðvar stórfyrirtækja í New York hafa kallað fram athyglisverðar umræður vestan hafs.

Síðustu viðvaranir stjórnvalda í Bandaríkjunum vegna hugsanlegra árása hryðjuverkamanna bin Ladens á höfuðstöðvar stórfyrirtækja í New York hafa kallað fram athyglisverðar umræður vestan hafs.

Af hálfu stjórnvalda er því að sjálfsögðu haldið fram, að þær upplýsingar sem þessar viðvaranir byggist á séu raunverulegar, jafnvel þótt þær í einhverjum tilvikum séu nokkurra ára gamlar. Og að ábyrgðarleysi hefði verið að senda ekki út viðvörun.

Demókratar gefa hins vegar í skyn, að Bush og hans menn hafi notað viðvörunina til þess að beina athygli fjölmiðla vestan hafs frá John Kerry og kosningabaráttu hans í kjölfar vel heppnaðs flokksþings þeirra fyrir skömmu.

Athygli vekur, að svo virðist sem almenningur í Bandaríkjunum hafi einhverja tilhneigingu til að trúa staðhæfingum demókrata og vantreysta Bush og hans mönnum að þessu leyti.

Hvoru tveggja er vont. Það er afleitt ef stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa hugsanlega með því að senda viðvaranir of oft út haft slævandi áhrif á almenning, sem er kannski farinn að yppta öxlum vegna þess, að það gerist aldrei neitt í kjölfar viðvarana.

Einn góðan veðurdag kunna alvarlegir atburðir að gerast og þá skiptir máli, að hinn almenni borgari sé undir það búinn.

Hins vegar er ekki hægt að útiloka þann möguleika, að Bush og hans menn freistist til þess að nota hættuna af hryðjuverkum og ótta almennings við hryðjuverk til þess að hafa áhrif á kosningabaráttuna.

Það eitt að einhver hluti bandarísku þjóðarinnar upplifi umhverfi sitt á þann veg, að stjórnvöld beiti upplýsingum um áform hryðjuverkamanna í pólitískum tilgangi innanlands sýnir að Bush á við að etja spurningar um trúverðugleika, sem kunna að verða honum þungar í skauti í kosningabaráttunni.