Esther Viktoría er ásamt móður sinni, Önnu Þóru Jónsdóttur, á leið á Ólympíuleikana í Aþenu.
Esther Viktoría er ásamt móður sinni, Önnu Þóru Jónsdóttur, á leið á Ólympíuleikana í Aþenu. — Morgunblaðið/ÞÖK
ESTHER Viktoría Ragnarsdóttir, 12 ára nemandi í Rimaskóla í Reykjavík, er ein af 29 börnum á aldrinum 9 - 12 ára sem fara á Ólympíuleikana í Aþenu.

ESTHER Viktoría Ragnarsdóttir, 12 ára nemandi í Rimaskóla í Reykjavík, er ein af 29 börnum á aldrinum 9 - 12 ára sem fara á Ólympíuleikana í Aþenu. Börnin eru frá öllum heimshornum og eru þau öll sigurvegarar í myndasamkeppni Visa sem ber heitið Ólympíuleikar ímyndunaraflsins, en nærri ein milljón barna víðsvegar um heim tók þátt í keppninni. Esther segist ekki hafa ætlað sér að taka þátt í keppninni en hlutirnir hafi þróast á þann veg að hún tók ekki bara þátt í keppninni heldur vann hana líka. "Það voru þemadagar í skólanum mínum og það mátti velja í hvað maður ætlaði að fara, eins og kökubakstur, frjálsar og sund og fleira. Svo var líka myndlist í vali og ég valdi eitthvað allt annað. Myndlistakennarinn vildi endilega að ég myndi koma og vera með í þessari keppni. Þannig að ég bara fór þangað," segir Esther sem endaði svo sem sigurvegari í keppninni á Íslandi. Hún segist hlakka til að fara til Aþenu, en þangað hafi hún aldrei komið áður.

Hún fer út með móður sinni, Önnu Þóru Jónsdóttur, næstkomandi þriðjudag og verða þær saman í viku. "Þetta verður stelpuferð hjá okkur," segir Anna móðir Estherar.