MIKIÐ bar á holugeitungi snemma í sumar að sögn Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands. Samkvæmt því hefði mátt búast við fjölgun búa miðað við fyrrasumar en af því varð ekki.

MIKIÐ bar á holugeitungi snemma í sumar að sögn Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands. Samkvæmt því hefði mátt búast við fjölgun búa miðað við fyrrasumar en af því varð ekki. Svo virðist sem hluta drottninganna hafi ekki tekist að gera bú fyrir sumarið. Hann segir þetta koma mjög á óvart en skýringarnar séu óþekktar. Hins vegar hafi fjöldi trjágeitunga verið stöðugur milli ára.

Smári Sveinsson, meindýraeyðir hjá Vörnum og eftirliti ehf., hefur orðið var við að tvær kynslóðir drottninga hafa komið upp búi í sumar. Fyrst hafi orðið vart við það í fyrrasumar. Takist slíkt leiði það til fjölgunar geitunga.

Róbert Ólafsson meindýraeyðir segir síðustu tvær vikurnar hafa verið rólegar og tiltölulega fá útköll vegna geitungabúa. Þó megi búast við að þeim fjölgi í ágúst þegar fólk kemur heim úr fríi og fer að vinna í görðum sínum. Hann segir geitunga ekkert illskeyttari í ágúst en á öðrum tíma ársins - þeir séu bara fleiri og því líklegra að fólk verði fyrir stungu.

Hann segir að fólk verði að fara varlega þegar það kemur heim eftir langa fjarveru. Hann hafi til dæmis þurft að fjarlægja geitungabú undir stól inni í stofu eftir að íbúarnir skildu eftir litla rifu á glugga þegar það yfirgaf heimilið.