Jean Renot má muna sinn fífil fegurri.
Jean Renot má muna sinn fífil fegurri.
Leikstjórn: Olivier Dahan. Handrit: Luc Besson. Aðalhlutverk: Jean Reno, Benoit Magimel, Camille Natta, Johnny Hallyday og Christopher Lee. 97 mín. Frakkland, Europa Corp 2004.

FYRRI myndin um Niemans lögreglustjóra og aðstoðarmann hans, Rauðilækur eða Crimson Rivers, naut vinsælda víða um Evrópu, enda spennandi leikstjóri og leikarar á ferð í hrollvekjandi frönskum trylli. Luc Besson var því snöggur að kaupa réttinn á mynd númer tvö, nýr leikstjóri er við stjórnvölinn í stað Mathieus Kassovitz og Magimel leysir Vincent Cassel af hólmi. Magimel er fínasti leikari, bæði heillandi, fjölhæfur og hæfileikaríkur og nýtur sín ágætlega í klisjukenndu hlutverki aðstoðarlöggunnar. Jean Reno er á sínum stað í aðalhlutverkinu, traustur að vanda, þar sem hann rannsakar dauða manns sem finnst múraður í vegg klausturs og tilfelli illa særðs manns sem finnst klæddur sem Kristur sjálfur.

Hins vegar standa leikstjóri og handritshöfundur sig ekki og árangurinn er vægast sagt ömurlegur. Luc Besson fjöldaframleiðir handrit og leggur greinilega enga vinnu í þau. Ég hafði á tilfinningunni að ég hefði mætt hálftíma of seint í bíó, þar sem engin kynning er á aðal- eða aukapersónum myndarinnar. Sagan hefst strax, ef sögu mætti kalla, því þessi klisjukennda þvæla heldur hvorki vatni né vindum, þótt upphaflega hugmyndin sé kannski ekki svo vitlaus.

Mörg eltinga- og slagsmálaatriði er að finna í þessar hasarmynd, og leikstjórinn, sem mesta reynslu hefur af myndbandagerð, hefur þau bæði of löng og ruglingsleg. Hann má þó eiga að á köflum er kvikmyndatakan hin ágætasta.

En ég segi bara aumingja Jesús og Christopher Lee að láta blanda sér í þetta bull.

Hildur Loftsdóttir