BIKARKEPPNI Frjálsíþróttasambands Íslands hefst í Kaplakrika í kvöld kl. 18.15 og lýkur á morgun. Alls tekur þátt 181 keppandi úr 6 liðum á mótinu - Breiðablik, FH, ÍR, HSK, UMSS og Vesturland. Lið HSK kemur í stað liðs UFA/UMSE, sem óskaði eftir að keppa ekki í Bikarkeppninni að þessu sinni.
Þetta er síðasti möguleiki íslensks frjálsíþróttafólks til að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Aþenu og munu Vala Flosadóttir, stangarstökkvari, sem varð þriðja á ÓL í Sydney 2000, Vigdís Guðjónsdóttir, spjótkastari, og Magnús Aron Hallgrímsson, kringlukastari, reyna við ólympíulágmörkin á mótinu. Óvíst er hvort Sunna Gestsdóttir tekur þátt í bikarkeppninni fyrir UMSS, þar sem svo gæti farið að hún yrði aðkeppa á móti erlendis.
FH-ingar þykja sem fyrr sigurstranglegastir í keppninni enda hefur liðið sigrað í henni 10 ár í röð og samtals 13 sinnum frá árinu 1988. FH-liðið nálgast því ÍR-liðinu, sem sigraði í keppninni 16 sinnum í röð og 17 sinnum alls á árunum 1972 til 1989.