GUNNAR Heiðar Þorvaldsson úr ÍBV, markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, Landsbankadeildar, var valinn besti leikmaður deildarinnar í öðrum þriðjungi hennar, umferðum 7-12. Gunnar Heiðar skoraði sex mörk á þessu tímabili, þar af fimm í tveimur síðustu leikjum ÍBV, og á drjúgan þátt í velgengni Eyjamanna sem nokkuð óvænt eru í öðru sæti deildarinnar. Sigurður Jónsson, þjálfari Víkings, var valinn besti þjálfarinn á þessu tímabili. Egill Már Markússon úr Gróttu var valinn besti dómarinn.
Í úrvalsliði deildarinnar úr umferðum 7-12 voru valdir leikmenn úr aðeins þremur félögum, FH, Víkingi og ÍBV. Þeir eru Birkir Kristinsson, Mark Schulte, Bjarnólfur Lárusson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson úr ÍBV, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Emil Hallfreðsson og Heimir Guðjónsson úr FH og þeir Grétar Sigurðarson, Kári Árnason og Jermaine Palmer úr Víkingi.
KSÍ stendur að þessu kjöri ásamt fjölmiðlum, Landsbankanum og Íslenskum getraunum.