SKATTTEKJUR ríkissjóðs á fyrstu fimm mánuðum ársins voru 15,5% hærri en á sama tímabili síðasta árs. Verðlag hækkaði um 2,4% á fyrstu fimm mánuðunum þannig að skatttekjur hækkuðu að raungildi um 12,8%, að því er segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

SKATTTEKJUR ríkissjóðs á fyrstu fimm mánuðum ársins voru 15,5% hærri en á sama tímabili síðasta árs. Verðlag hækkaði um 2,4% á fyrstu fimm mánuðunum þannig að skatttekjur hækkuðu að raungildi um 12,8%, að því er segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Þar kemur fram að heildartekjur ríkissjóðs á tímabilinu janúar-maí námu 109,2 milljörðum króna, þar af námu skatttekjur 101,5 milljörðum.

Innheimta tekjuskatta einstaklinga nam tæpum 26 milljörðum króna eða rúmlega 2,5 milljörðum króna meira en á sama tíma í fyrra. Innheimta tekjuskatta lögaðila jókst um 1,3 milljarða króna. Innheimta tekna af virðisaukaskatti jókst um 16,1% frá því á sama tíma síðasta árs.

Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs var neikvætt um 1,8 milljarða króna fyrstu fimm mánuði ársins sem er 7,7 milljörðum hagstæðari útkoma en á sama tíma í fyrra og 6,7 milljörðum hagstæðara en áætlað var. Greiðsluafkoma ríkissjóðs batnaði um 8,5 milljarða króna.

Gjöld ríkissjóðs fyrstu fimm mánuði ársins námu 111,6 milljörðum sem er 5,3 milljörðum króna hærra en á sama tíma í fyrra. Mest aukning er í greiðslum til almannatrygginga, um 2,1 milljarður króna.