KNATTSPYRNUFÉLAGIÐ Manchester United hafði mestar tekjur og mestan hagnað allra enskra knattspyrnufélaga á leiktímabilinu 2002 til 2003, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Deloitte vegna skýrslu fyrirtækisins um ensku knattspyrnuna. Tekjur Manchester United námu 23 milljörðum króna og rekstrarhagnaður félagsins nam yfir 6 milljörðum króna.
Liverpool og Arsenal koma næst á eftir Manchester United í tekjum með um 14 milljarða króna hvort félag.
Samanlagðar tekjur liðanna í ensku úrvalsdeildinni halda áfram að aukast að því er fram kemur hjá Deloitte og námu 162 milljörðum króna á síðasta tímabili. Deloitte áætlar að á komandi keppnistímabili verði tekjurnar 177 milljarðar króna.
Greiðslur fyrir leikmenn lækka
Tekjur annarra stórra knattspyrnudeilda í Evrópu eru mun minni, samkvæmt skýrslu Deloitte. Næst kemur ítalska deildin með 104 milljarða króna og heildartekjur allra knattspyrnuliða og -sambanda í Evrópu eru metnar um 936 milljarðar króna. Sala sjónvarpsréttar er stærsti tekjuliðurinn og skilar um 169 milljörðum króna.Launakostnaður í ensku úrvalsdeildinni hækkaði um 8% milli ára og nam tæpum 100 milljörðum króna. Þetta er minnsta aukning frá stofnun deildarinnar, en að meðaltali hefur aukningin verið 25%.
Launagreiðslur eru að meðaltali 61% af tekjum í deildinni, en þrátt fyrir að Manchester United greiði hæstu launin er hlutfallið lægst hjá því félagi, eða innan við 50%.
Greiðslur fyrir leikmenn hafa lækkað mikið milli ára, eða úr 51 milljarði króna í 26 milljarða króna á síðasta tímabili.