Friðrik Jóhannsson
Friðrik Jóhannsson
BURÐARÁS hefur aukið hlut sinn í breska fjárfestingarbankanum Singer & Friedlander Group Plc. (S&F). Í tilkynningu frá Burðarási til Kauphallar Íslands í gær kemur fram að hlutur félagsins í S&F er kominn í 8,03% af útgefnu hlutafé bankans.

BURÐARÁS hefur aukið hlut sinn í breska fjárfestingarbankanum Singer & Friedlander Group Plc. (S&F). Í tilkynningu frá Burðarási til Kauphallar Íslands í gær kemur fram að hlutur félagsins í S&F er kominn í 8,03% af útgefnu hlutafé bankans. Markaðsvirði eignarhlutar Burðaráss í S&F svarar til tæplega 5 milljarða króna.

Greint var frá því síðastliðinn þriðjudag að Burðarás hefði keypt 3,4% hlut í S&F en félagið átti þá ekki fyrir hlutabréf í bankanum.

Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, vildi í gær ekki tjá sig um kaup félagsins í S&F. Hann vísaði til þess sem haft var eftir honum í viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær, að fjármálastarfsemi sé ein af þeim atvinnugreinum sem Burðarás vilji leggja áherslu á og áhugavert sé að eignast hlut í S&F.

KB banki á 19,5% hlut í S&F frá því í febrúar síðastliðnum. Þá gáfu stjórnendur bankans út yfirlýsingu þess efnis að bankinn hygðist ekki yfirtaka breska bankann. KB banki má ekki reyna yfirtöku í sex mánuði frá slíkri yfirlýsingu, samkvæmt reglum í Bretlandi, en nú eru innan við þrjár vikur þar til sá tími er liðinn. Komi til þess að KB banki auki hlut sinn í S&F ber honum að gera öðrum hluthöfum í S&F yfirtökutilboð, ef eignarhlutur bankans fer yfir 30%.

Lokaverð hlutabréfa S&F var 265 pens á hlut í kauphöllinni í Lundúnum í gær og hækkaði um rúm 5% frá deginum áður. Hefur verðið hækkað um 13% frá því greint var frá kaupum Burðaráss í S&F síðastliðinn þriðjudag.